Taka samræmdu prófin í september

Nemendur 10. bekkjar í tíu grunnskólum, sem urðu fyrir barðinu …
Nemendur 10. bekkjar í tíu grunnskólum, sem urðu fyrir barðinu á á tækni­leg­um vanda­mál­um við fyr­ir­lagn­ingu samræmdu prófanna í vor, munu þeyta prófin í september. mbl.is/Eyþór Árnason

Nemendur 10. bekkjar í tíu grunnskólum, sem urðu fyrir barðinu á á tækni­leg­um vanda­mál­um við fyr­ir­lagn­ingu samræmdu prófanna í vor, munu þreyta prófin dagana 10.-14. september.

Hætta varð við sam­ræmd grunn­skóla­próf­ í ensku og ís­lensku í miðjum klíðum í sumum skólum sl. vor vegna tækni­legra mistaka.

Greint var frá því í vor að öllum nemendum yrði gefinn kostur á að taka prófin að nýju og að stjórnendur í hverjum skóla tækju ákvörðun um hvort prófin yrðu lögð fyrir sl. vor eða nú í haust. 

Í 130 skólum var ákveðið að leggja þau fyrir að vori og gekk framkvæmd prófanna hnökralaust fyrir sig að því er segir í fréttatilkynningu Menntamálastofnunar.

Í næstu viku mun síðan endurfyrirlögn prófanna fara fram í þeim tíu skólum sem ákváðu að fresta fyrirlögn fram á haustið. 

Vinnulag við undirbúning og framkvæmd prófanna tekur mið af niðurstöðum óháðra úttekta sem gerðar voru að loknum prófunum í mars. Þannig hafa verkferlar verið endurskoðaðir, tæknilegri högun prófakerfis verið breytt og er skólum nú í sjálfsvald sett á hvaða tíma dags prófin hefjast en með því á álag á prófakerfið að dreifast betur en hingað til.

Viðbragðsáætlanir hafa sömuleiðis verið endurbættar, m.a. til að auðvelda skólastjórnendum að bregðast við ef truflanir verða við fyrirlögn prófanna.

Vekur Menntamálastofnun athygli á því að framhaldsskólar óska ekki eftir niðurstöðum samræmdra könnunarprófa þegar umsóknir um framhaldsskólavist eru metnar, enda sé prófunum „ekki ætlað að veita heildarmat á námsstöðu einstaklings við lok skyldunáms“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka