Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrir helgi þess efnis að Sigurður Kristinsson skuli sæta farbanni til fimmtudagsins 4. október.
Sigurður hefur verið í farbanni frá 20. apríl. Hann er grunaður um að vera viðriðinn innflutning á fimm kílóum af amfetamíni til landsins. Mál Sigurðar barst héraðssaksóknara til ákærumeðferðar 5. september.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að samkvæmt mati héraðssaksóknara sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geti tólf ára fangelsi.
Því sé nauðsynlegt að tryggja nærveru hans á meðan sakamálið á hendur honum sé tekið til meðferðar fyrir dómstólum.
Sigurður var upphaflega handtekinn við komuna til landsins frá Spáni í lok janúar.