Óska eftir viðræðum um greiðslu bóta

Húsnæði Geymslna var ónýtt eftir eldsvoðann.
Húsnæði Geymslna var ónýtt eftir eldsvoðann. mbl.is/RAX

Lögmaður 43 manna hóps sem leigði geymslur í húsnæðinu sem brann í Miðhrauni í apríl hefur sent bréf til lögmanns Geymslna þar sem umbjóðendur hans krefjast þess að þeim verði afhentir þeir munir sem þeir geymdu í húsnæðinu.

Ef eigendur Geymslna geta ekki orðið við kröfunni mun lögmaðurinn óska eftir viðræðum um bætur handa þeim vegna tjónsins sem þeir urðu fyrir þegar eigur þeirra eyðilögðust í eldsvoðanum, að því er kemur fram í bréfinu.

Ákvæði laga um þjónustukaup 

Þar segir að ábyrgð Geymslna byggist á því að fyrirtækið geymdi munina á sína ábyrgð gegn gjaldi og því beri því að skila þeim til eigenda sinna eða sjá til þess að eigendur geti nálgast þá.

Einnig byggir ábyrgðin á ákvæðum laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Samkvæmt þeim fellur ábyrgð á seljanda þjónustu ef hann getur ekki afhent hluti til eigenda, t.d. vegna þess að þeir eyðileggjast í eldsvoða. Vitnað er í lögskýringagögn þar sem tekið er fram að ábyrgðin sé felld á seljanda þjónustu vegna þess að hann eigi þann kost að tryggja fyrir slíku tjóni.

Slökkviliðið berst við eldsvoðann í Miðhrauni í apríl.
Slökkviliðið berst við eldsvoðann í Miðhrauni í apríl. mbl.is/Eggert

Tóku enga húseign á leigu 

Fram kemur að samningar sem víki frá skyldum seljanda slíkrar þjónustu á kostnað seljanda séu ógildir. „Þannig dugar ekki fyrir umbjóðanda yðar að bera því við að hann hafi gert húsaleigusamninga við umbjóðendur mína, enda tóku þeir enga húseign á leigu,“ segir í bréfinu.

Lögmaður hópsins, Guðni Á. Haraldsson hjá Löggarði, bætir við í bréfinu: „Ef umbjóðandi yðar getur orðið við kröfum umbjóðenda minna þá fagna þeir því. Ef ekki þá óska þeir viðræðna við hann um greiðslu bóta sem samsvara því tjóni og þeim kostnaði sem þeir hafa orðið fyrir. Ef ekki þá munu þeir leita réttar síns fyrir dómstólum.“

Frá Miðhrauni eftir eldsvoðann mikla.
Frá Miðhrauni eftir eldsvoðann mikla. mbl.is/RAX

Vilja viðræður í stað dómsmáls

Aðspurður segir Ágúst Valsson, einn forsvarsmanna hópsins, að allar eigurnar þeirra hafi brunnið í eldsvoðanum en í bréfinu er þess krafist formsins vegna að allar eigurnar verði afhentar. „Við viljum að þeir ræði við okkur í staðinn fyrir að þetta fari fyrir dómstóla. Það er einfaldasta og skynsamlegasta leiðin,“ segir Ágúst um eigendur Geymslna.

Hann segir að sumir hafi fengið greiddan frá tryggingafélagi sínu hluta af því tjóni sem þeir urðu fyrir en aðrir ekki. Ef heimilistryggingin dekkar til dæmis 15% og menn hafa verið með eignir upp á 10 milljónir í Geymslum eru bæturnar ekki nálægt því sem ásættanlegt mætti teljast.

Ágúst telur að hópmálsóknin geti kostað 3 til 4 milljónir króna í heildina. Til að byrja með hafi verið miðað við 35 þúsund króna kostnað á mann, ef 80 manna hópur myndi taka þátt. Hann bætir við að margir hafi sent sér skilaboð að undanförnu og á von á að hópurinn muni stækka enn frekar. Hvetur hann fólk til að hafa samband í gegnum Facebook-síðuna Leigutakar hjá Geymslum í Miðhrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert