Geðhvörf virðast vera jafntíð meðal kvenna og karla. Sjúkdómurinn greinist oftast þegar fólk er á aldrinum 17-30 ára. Ágúst Kristján Steinarrsson, sjálfstætt starfandi stjórnunarráðgjafi og jöklaleiðsögumaður, var greindur með geðhvörf árið 1999 þegar hann var nítján ára gamall.
Ágúst segir að hegðun hans hafi breyst mjög á þessum tíma. Hann var ekki lengur yfirvegaður líkt og áður og kátínan og gleðin breyttist í að verða ör og spenntur. Ágúst var nauðungarvistaður á geðdeild og var þar í tvo mánuði.
Að sögn Ágústs gekk lífið sinn vanagang eftir að hann útskrifaðist og ólíkt mjög mörgum sem eru með geðhvörf hefur hann aldrei þurft að glíma við þunglyndi en geðhvörf einkennast ýmist af geðhæðar- eða geðlægðartímabilum.
Eftir sjúkrahúsvistina hélt Ágúst áfram námi og lauk bæði menntaskóla og háskólanámi án þess að sjúkdómurinn bankaði upp á að nýju. Það var ekki fyrr en hann var kominn út á vinnumarkaðinn sem manía lét á sér kræla. Í það skiptið tók það hann nokkrar vikur að jafna sig og mæta aftur til vinnu.
Viðtalið við Ágúst var birt á mbl.is um síðustu helgi í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði
Um svipað leyti greindist hann með sáraristilbólgu og fylgdu henni miklar takmarkanir og vanlíðan mikil. Ristilbólgurnar leiddu til krabbameins og þurfti að fjarlægja ristilinn og koma fyrir stóma í hans stað. Ágúst segir að næstu tvö árin hafi allt gengið vel þar sem hann var loks heilbrigður og hann notið lífsins þar sem útivist og ævintýri skipuðu stóran sess. Kletta- og ísklifur voru meðal þess sem Ágúst stundaði af miklum móð á þessum tíma.
„Gleðin virtist engan endi ætla að taka en svo endaði hún með maníu,“ segir Ágúst en þá voru sjö ár liðin frá síðustu veikindum. Hann sagði það hafi verið mikið áfall þar sem hann hafi hreinlega talið að veikindin væru að baki. Við tók tímabil þar sem Ágúst fór þrisvar í maníu á fjórum árum og allt útlit fyrir að framtíðin yrði krefjandi.
Ágúst segir að í síðasta skiptið hafi hann lent í sinni verstu maníu með þeim afleiðingum að hann var lagður inn á sjúkrahús í Danmörku eftir að hafa staðið nakinn á torgi í Kaupmannahöfn. Á sjúkrahúsinu úti upplifði hann hins vegar annað viðmót frá starfsfólki geðdeildar en hann átti að venjast frá Íslandi. „Þarna fékk ég stuðning, ást og hlýju. Eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað á geðdeild hér á landi,“ segir Ágúst.
Ágúst telur að hlýjan í stað ofbeldis hafi haft mest að segja um að meðferðin virkaði sem skyldi. „Þegar ég var lagður inn í Danmörku var ég versta útgáfan af sjálfum mér en þeim tókst að vinna með mér með þolinmæði og kærleik. Það merkilega við það er að ég hef verið góður af mínum veikindum síðan þá en fimm ár eru síðan þetta var,“ segir Ágúst.
Í viðtali við Bergljótu Baldursdóttur í þætti á RÚV í febrúar lýsti Ágúst ofbeldinu sem hann varð fyrir á Landspítalanum á sínum tíma.
„Valdbeiting getur verið svo rosalega margbreytileg, allt frá því að segja manni að gera eitthvað yfir í það að virkilega beita valdi. Nærtækasta sagan sem ég vísa helst í gerðist fyrir fimm árum. Stutta sagan er að ég gleymdi tösku. Ég var útskrifaður og kem daginn eftir til að sækja töskuna og er svona ginntur inn í samtal við lækni sem ég hafði ekki hitt áður. Áður en ég veit af eru sjö manns búnir að veitast að mér og halda mér niðri með valdi, afklæða mig og sprauta mig. Þeir urðu ekki rólegir fyrr en þeir voru búnir að sprauta mig.“
Ágúst segir að eftir á að hyggja hafi ekki átt að útskrifa hann því hann hafi enn þá verið í maníu.
„Ég stóð aftur á móti í þeirri trú að ég ætti ekki að vera þarna inni en þeir túlkuðu mig sem ógn. Þeir töldu að ég væri ógn við sjálfan mig og aðra og þeir voru að búa sig undir það að ég myndi valda usla eða hættu og þeir þyrftu þá að grípa til mjög róttækra aðgerða og það var, að því er virtist, þeim mjög eðlislægt að beita ofbeldi,“ sagði Ágúst í viðtalinu við RÚV.
Ágúst segir í samtali við mbl.is að þegar ofbeldinu ljúki virðist sem allir eigi að standa upp og vera glaðir. „Þannig virkar mannsheilinn einfaldlega ekki og þetta vakti með mér stríðsmanninn og hann fór ekkert,“ segir Ágúst.
Hann segir að ofbeldi og fordómar sem hafi mætt honum af hálfu starfsfólks geðdeildar hafi verið mjög óþægilegt. Mikið álag fylgi starfi á geðdeild og telur hann að það geti verið hluti af skýringunni en eflaust sé álagið líka mikið á geðdeildum í Danmörku og samt sé allt annað viðhorf þar ríkjandi í garð sjúklinga og líðanar þeirra.
Eins og fram kom hefur Ágúst ekki farið í maníu í fimm ár sem hann segir vitnisburð um mikinn árangur. Spurður út í hvað hann geri til þess að viðhalda góðri heilsu segist hann hafa endurskoðað allt í sínu lífi. „Frá því ég veiktist síðast hefur minn lífsstíll verið mín meðferð. Ég einblíni á að líða vel í eigin skinni á hverjum degi og forðast þannig áreiti sem getur dregið mig inn vanlíðan og streitu.“
Hann segist gæta vel að mataræðinu og er duglegur að hreyfa sig. Hann stundar mikla útivist, svo sem klifur, fjallgöngur og skíði. Eins stundar hann jóga og hittir sálfræðing og fleiri sem hjálpa honum að læra inn á sjálfan sig og fyrirbyggja hugsanlegar gildrur í daglegu lífi. Í starfi sínu sem jökla- og fjallaleiðsögumaður er Ágúst mikið á flakki um hálendið og líður honum hvergi eins vel og úti í náttúrunni. Hann er að minnsta kosti eina viku í hverjum mánuði á fjöllum en auk leiðsagnar rekur hann ráðgjafafyrirtækið Viti ráðgjöf þar sem hann aðstoðar fyrirtæki og stofnanir meðal annars með stjórnendaráðgjöf, greiningum og verkefnastjórn.
Þegar Ágúst er spurður út í stöðu hans í dag segir hann að lífið sé mjög gott, í raun stórgott. „Ég er farinn að líkja lífinu við slönguspilið góða, þar sem fólk er bundið við lukku teningsins hvort þau lendi á slöngu eða tröppu. Nýlega er mér farið að finnast eins og ég spili ekki lengur eftir þessum reglum og lifi þess í stað óhefðbundnara lífi sem leyfir mér hreinlega að labba yfir leikborðið á eigin forsendum.“
Ágúst tekur þó fram að hann er fullur auðmýktar gagnvart geðhvörfunum, að þótt hann sé búinn að vera í góðu jafnvægi muni hann aldrei líta svo á að hann hafi fulla stjórn mögulegri maníu. Þannig veltir hann upp hvort það viðhorf sé lykillinn að stöðugleika.
Annað sem Ágúst hefur tekið upp á er að skrifa, hvort sem það eru dagbókarskrif, ljóðagerð, söguskrif eða söngtextar, sem alla jafna er um hans lífsreynslu. Hann talar um hversu mikið meðferðargildi hefur verið í þeirri vinnslu.
„Einhvern veginn tókst mér að breyta erfiðum minningum í eitthvað annað, eitthvað fallegt og þannig breytist minningin í huga mínum, og tilfinningin með. Síðar á árinu kemur út bók eftir hann sem nefnist Riddarar hringavitleysunnar þar sem sögð er sjálfssaga af lífsreynslu hans í skáldlegum búningi. „Þetta er mjög hreinskilin frásögn og líklegast fá lesendur mun dýpri innsýn í heim þess veika en þeir hafa áður fengið. Ég vona að hún hreyfi við fólki,“ segir Ágúst að lokum en hann mun jafnframt fylgja bókinni eftir með fyrirlestrum um sama efni.