Frumvarp þar sem lagt er til að komið verði böndum á starfsemi smálánafyrirtækja hefur verið lagt fram á Alþingi. Starfsemin skal gerð starfsleyfisskyld.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og sjö aðrir þingmenn úr stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkum lögðu fram frumvarpið.
Í greinargerð kemur fram að sett verði sérlög um starfsemi smálánafyrirtækja þar sem settur verði skýr rammi. Tryggt verði að þeir fái eingöngu starfsleyfi sem uppfylli tiltekin skilyrði og starfi á grundvelli laga um neytendalán um árlega hlutfallstölu kostnaðar.
Fram kemur einnig að fjármálaeftirlitið myndi veita smálánafyrirtækjum starfsleyfi.
Aðeins einstaklingar og lögaðilar sem eru búsettir hér á landi geta verið stofnendur smálánafyrirtækis, samkvæmt frumvarpinu. Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanþegnir búsetuskilyrðum.
Einnig segir í frumvarpinu að smálánafyrirtæki skuli tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu. Einnig skulu þau m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu.
Fram kemur að áður en fólk geti fengið lán hjá smálánafyrirtæki skuli fyrirtækið láta fara fram mat á greiðslugetu viðkomandi og skjalfesta þær niðurstöður.
Ekki er heimilt að veita lán til viðskiptavina sem meðal annars eru ólögráða, ekki fjárráða og hafa haft meðaltekjur síðasta árið undir lægstu atvinnuleysisbótum.
Mat á greiðslugetu skal endurskoða reglulega og eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Óheimilt er að greiða út lán til viðskiptavinar fyrr en 48 klukkustundir eru liðnar frá samþykkt lánsumsóknar. Móttaka og afgreiðsla umsókna um smálán skal aðeins vera heimil frá kl. 9 til kl. 17 á virkum dögum.