Embætti héraðssaksóknara hefur ákært þrjá karlmenn í skáksambandsmálinu svokallaða. Meðal þeirra sem eru ákærðir er Sigurður Kristinsson, en auk hans eru ákærðir tveir menn á þrítugsaldri, annars 21 árs og hinn 24 ára. Málið verður þingfest á föstudaginn í Héraðsdómi Reykjavíkur, en Rúv greindi fyrst frá ákærunni.
Málið tengist meintum innflutningi á rúmlega fimm kílóum af amfetamíni. Kom málið upp í janúar með umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar hér á landi. Var Sigurður þá staddur á Spáni, en kom hingað til lands í framhaldinu og var handtekinn. Hann var í upphafi úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins, en var svo ítrekað úrskurðaður í farbann, núna síðast til 4. október. Hefur hann sætt farbanni frá 20. apríl.
Sigurður er fyrrverandi eiginmaður Sunnu Elviru sem sætti farbanni um nokkurra vikna skeið, eftir að hafa lamast við fall á heimili sínu á Spáni.
Annað dómsmál var höfðað gegn Sigurði og fleirum í tengslum við meiri háttar skattalagabrot verktakafyrirtækisins SS húsa, en Sigurður var eigandi þess félags. Gekkst hann við að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti. Hann neitaði hins vegar sök í öðrum hluta ákærunnar í því máli þar sem honum var gerð að sök skil á röngum virðisaukaskattskýrslum þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalinn á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga og um leið vanframtalinn virðisaukaskatt.