Staðan ekki séríslenskt fyrirbæri

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/​Hari

„Við höfum auðvitað verið með samráðshóp starfandi frá því síðasta vor sem hefur það hlutverk að greina kerfislæg mikilvæg fyrirtæki. Þar er ekki aðeins um að ræða flugfélögin heldur einnig til að mynda orkufyrirtækin,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is spurð um stöðuna á íslenskum flugrekstrarmarkaði.

„Flugfélögin voru fyrst á dagskrá vegna þess að þau hafa auðvitað stækkað mikið og vega þyngra í hagkerfinu okkar en bara fyrir nokkrum árum. Við höfum þannig fyrst og fremst verið að fylgjast grannt með stöðunni. Það liggur fyrir að þrengingarnar sem við erum að sjá núna til dæmis hjá Primera Air eru ekki séríslenskt fyrirbæri heldur er staðan erfið á evrópskum flugmarkaði, meðal annars vegna hækkandi olíuverðs og mikillar samkeppni um fargjöld. Fyrir vikið erum við að sjá þrengingar víða og þetta er einfaldlega eitthvað sem öll stjórnvöld gera auðvitað áætlanir um hvernig eigi að takast á við,“ segir Katrín.

Tækifæri fólgin í meira jafnvægi

„Spár gera ráð fyrir að nú muni hægjast á vexti og þá liggur fyrir að það er mikilvægt að við sem samfélag séum undirbúin fyrir það og þar með þarf auðvitað ferðaþjónustugeirinn að laga sig að þeim aðstæðum. Ég tel að ferðaþjónustan eigi eftir að verða áfram mikilvægur hluti af okkar hagkerfi en við getum auðvitað ekki reiknað áfram með áframhaldandi veldisvexti sem verið hefur. Við sjáum fram á hóflegri vöxt og ég tel að í því felist ákveðið tækifæri til þess að leggja meiri áherslu á marka sér meiri sérstöðu og horfa þá sérstaklega til grænnar ferðaþjónustu sem er mikill áhugi á að gera betur í.“

Ferðamenn komi fyrst og fremst til Ísland til þess að njóta íslenskrar náttúru og þar séu gríðarleg tækifæri til að skara fram úr til dæmis þegar komi að umhverfisverndarsjónarmiðum. „Fólkið sem hingað kemur er að koma hingað út af náttúrunni og hefur áhuga á þeim málum. Við sjáum ýmis fyrirtæki vera að stíga mjög spennandi skref til dæmis í loftlagsmálum, varðandi kolefnisjöfnuð og matarsóun. Þannig að ég tel að það séu líka tækifæri fólgin í þeim breyttu tímum sem við horfum fram á. Þegar komið er meira jafnvægi í þessum geira liggja tækifærin í sérstöðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert