Vinnumálastofnun hafnar ásökunum ASÍ

Vinnumálastofnun segir orðræðu af þessu tagi ekki til þess fallna …
Vinnumálastofnun segir orðræðu af þessu tagi ekki til þess fallna að styrkja baráttu gegn ólíðandi framgöngu. Ljósmynd/Aðsend

Vinnumálastofnun lýsir undrun sinni á ályktun miðstjórnar ASÍ og þeim aðdróttunum og innihaldslausu ásökunum sem þar eru settar fram í garð stofnunarinnar í tengslum við starfsemi Primera Air Nordic. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Vinnumálastofnun en þar er vísað til ályktunar sem miðstjórn ASÍ sendi frá sér í dag. Vinnumálastofnun hafnar ásökununum.

„Þar er því gert skóna [sic] að Vinnumálastofnun hafi látið hjá líða að sinna lögbundnum skyldum sínum og að hún beri ábyrgð á þeim aðstæðum sem áhafnarmeðlimir hjá Primera Air Nordic og flugfarþegar eru nú í um allan heim. Fullyrðingar þessar eru með ólíkindum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Vinnumálastofnunar.

Í ályktun ASÍ frá því í dag segir að Flug­freyju­fé­lag Íslands og Alþýðusam­band Íslands hafi und­an­far­in ár leit­ast við að stöðva ólög­lega starf­semi Pri­mera Air Nordic og fé­lags­leg und­ir­boð þess á ís­lensk­um vinnu­markaði. Þegar starf­semi fé­lags­ins stöðvist nú vegna greiðsluþrots liggi fyr­ir boðun ótíma­bund­inn­ar vinnu­stöðvun­ar frá og með 15. nóv­em­ber nk.

„Miðstjórn ASÍ harm­ar að Vinnu­mála­stofn­un hafi, þrátt fyr­ir ít­rekaðar kröf­ur FFÍ og ASÍ, látið hjá líða að nota þau laga­legu úrræði sem stofn­un­in hef­ur til þess að stöðva ólög­lega starf­semi Pri­mera Air Nordic hér landi. Af þeim ástæðum eru nú áhafn­ir þeirra flug­véla sem gerðar hafa verið út frá Íslandi strandaglóp­ar er­lend­is, fólk sem greidd hafa verið smán­ar­laun og sem rang­lega hef­ur verið skráð sem verk­tak­ar. Til viðbót­ar er fjöldi Íslend­inga nú strandaglóp­ar er­lend­is vegna gjaldþrots­ins.“

Vinnumálastofnun segir ASÍ hins vegar hafa verið fullkunnugt um að stofnunin hafi hvorki haft lagaheimildir né lagaleg úrræði til að hafa afskipti af starfsemi fyrirtækisins hér á landi. 

Stofnunin hafi tekið þátt í samstarfi m.a. með aðilum vinnumarkaðarins um nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að sporna gegn félagslegum undirboðum. Breytingarnar hafi meðal annars snúið að því að auka eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar, t.d. með heimild til að leggja á sektir á fyrirtæki sem veita ekki umbeðnar upplýsingar og/eða verða við öðrum kröfum stofnunarinnar. 

„Vinnumálastofnun hafnar þeim ásökunum sem fram koma í nefndri ályktun um að hún sinni ekki lögboðnu eftirliti sínu á vinnumarkaði. Þvert á móti sinnir hún eftirlitsstarfi sínu ein sem og í samstarfi við aðra opinbera aðila auk aðila vinnumarkaðarins. 

Orðræða af þessu tagi er því miður ekki til þess fallin að styrkja baráttuna gegn ólíðandi framgöngu á íslenskum vinnumarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert