Vinnumálastofnun lýsir undrun sinni á ályktun miðstjórnar ASÍ og þeim aðdróttunum og innihaldslausu ásökunum sem þar eru settar fram í garð stofnunarinnar í tengslum við starfsemi Primera Air Nordic. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Vinnumálastofnun en þar er vísað til ályktunar sem miðstjórn ASÍ sendi frá sér í dag. Vinnumálastofnun hafnar ásökununum.
„Þar er því gert skóna [sic] að Vinnumálastofnun hafi látið hjá líða að sinna lögbundnum skyldum sínum og að hún beri ábyrgð á þeim aðstæðum sem áhafnarmeðlimir hjá Primera Air Nordic og flugfarþegar eru nú í um allan heim. Fullyrðingar þessar eru með ólíkindum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Vinnumálastofnunar.
Í ályktun ASÍ frá því í dag segir að Flugfreyjufélag Íslands og Alþýðusamband Íslands hafi undanfarin ár leitast við að stöðva ólöglega starfsemi Primera Air Nordic og félagsleg undirboð þess á íslenskum vinnumarkaði. Þegar starfsemi félagsins stöðvist nú vegna greiðsluþrots liggi fyrir boðun ótímabundinnar vinnustöðvunar frá og með 15. nóvember nk.
„Miðstjórn ASÍ harmar að Vinnumálastofnun hafi, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur FFÍ og ASÍ, látið hjá líða að nota þau lagalegu úrræði sem stofnunin hefur til þess að stöðva ólöglega starfsemi Primera Air Nordic hér landi. Af þeim ástæðum eru nú áhafnir þeirra flugvéla sem gerðar hafa verið út frá Íslandi strandaglópar erlendis, fólk sem greidd hafa verið smánarlaun og sem ranglega hefur verið skráð sem verktakar. Til viðbótar er fjöldi Íslendinga nú strandaglópar erlendis vegna gjaldþrotsins.“
Vinnumálastofnun segir ASÍ hins vegar hafa verið fullkunnugt um að stofnunin hafi hvorki haft lagaheimildir né lagaleg úrræði til að hafa afskipti af starfsemi fyrirtækisins hér á landi.
Stofnunin hafi tekið þátt í samstarfi m.a. með aðilum vinnumarkaðarins um nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að sporna gegn félagslegum undirboðum. Breytingarnar hafi meðal annars snúið að því að auka eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar, t.d. með heimild til að leggja á sektir á fyrirtæki sem veita ekki umbeðnar upplýsingar og/eða verða við öðrum kröfum stofnunarinnar.
„Vinnumálastofnun hafnar þeim ásökunum sem fram koma í nefndri ályktun um að hún sinni ekki lögboðnu eftirliti sínu á vinnumarkaði. Þvert á móti sinnir hún eftirlitsstarfi sínu ein sem og í samstarfi við aðra opinbera aðila auk aðila vinnumarkaðarins.
Orðræða af þessu tagi er því miður ekki til þess fallin að styrkja baráttuna gegn ólíðandi framgöngu á íslenskum vinnumarkaði.“