Skútunni Inook var stolið úr Ísafjarðarhöfn í nótt. Varðskipið Þór og þyrla Landhelgisgæslunnar hafa veitt henni eftirför í dag. Skútan kom til hafnar á Rifi á Snæfellsnesi um kl. 21 í kvöld og voru tveir sérsveitarmenn á meðal þeirra sem veittu henni móttöku.
„Hún er við það að koma til hafnar á Rifi. Þyrlan er lent í Reykjavík og það er búið að snúa varðskipinu við,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is fyrr í kvöld.
Hann segir þyrlu Gæslunnar hafa farið tvær ferðir vegna málsins, í fyrri ferðinni fann hún skútuna en svo flaug hún aftur til Reykjavíkur og náði í tvo sérsveitarmenn og tvo starfsmenn séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Þá flutti hún á Rif, þar sem þeir eru núna og tóku á móti skútunni.
Málið er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum, sem hefur varist fregna og sagt við fjölmiðla að lögregla muni senda frá sér tilkynningu um málið.
Skútan ber heitið Inook og er 40 feta löng, samkvæmt heimildum mbl.is. Eigandi hennar er franskur og mun ekki vera staddur hérlendis.
Ekki hafa fengist upplýsingar um það hversu margir eru um borð í skútunni eða hvað þeim gengur til. Engin segl eru um borð í skútunni og því gengur hún einungis fyrir vélarafli.
Lögreglan á Vestfjörðum sendi frá sér tilkynningu vegna málsins á áttunda tímanum í kvöld og sagði að óskað hefði verið eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar til að hafa uppi á áhöfn skútu.
Sú beiðni barst um klukkan 14 í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá send í loftið og fann hún skútuna fljótlega og í kjölfarið var varðskipið Þór sent af stað. Aðstoð þess hefur nú verið afturkölluð, sem áður segir.