Vilja stýra aðgengi en ekki hindra það

mbl.is/​Hari

Tilgangurinn með því að setja verklagsreglur um aðgengi fólks að grunnskólum er ekki að koma í veg fyrir að aðgengi heldur að stýra því. Þetta segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, í samtali við mbl.is, en eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag hafa ýmsir grunnskólar tekið upp aðgangsstýringu, þar sem foreldrum, að þeirra sögn, hefur til að mynda verið meinaður aðgangur inn í skólastofur barna sinna.

Fram kemur í fréttinni að vísað hafi verið í ný persónuverndarlög í þessum efnum en Þorsteinn segir slíkar verklagsreglur ekki hluta af nýjum lögum heldur sé verið að endurskoða verklag ýmissa þátta í starfsemi grunnskóla, samhliða innleiðingu nýrra persónuverndarlaga. Hann bendir á að grunnskólarnir séu vinnustaðir nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólanna og það sé varla eðlilegt að hver sem er hafi óheftan aðgang að rýmum skólans á öllum tímum.

„Samhliða því að verið er að aðlaga nýja persónuverndarlöggjöf að skólastarfi grunnskóla eru grunnskólarnir að gera ákveðnar breytingar á ýmsu verklagi sem hefur verið tíðkað innan þeirra. Það er verið að nota tækifærið núna til þess að skilgreina betur verklag um ýmsa þætti í starfinu sem í sjálfu sér er löngu tímabært. Þessar umræddu breytingar á verklagi eru hins vegar ekki tilkomnar vegna nýju persónuverndarlaganna.“

Snýst um viðkvæmar upplýsingar um einstaklinga

Þorsteinn bendir á að í nýjum ábendingum Persónuverndar sé einmitt komið inn á heimildir grunnskóla til þess að setja sér verklagsreglur þar sem segi að það geti talist eðlilegt að skólar, líkt og aðrar stofnanir, setji sér slíkar reglur og viðhafi aðgangsstýringu þar sem það eigi við með öryggissjónarmið að leiðarljósi. „Það er ekki markmiðið með slíkum reglum að hindra aðgang að skólunum heldur að stýra aðganginum.“

Fleira hefur verið rætt um í þessu sambandi og þar á meðal að foreldrar séu beðnir að undirrita trúnaðaryfirlýsingu um að allt það sem þeir verði vitni að innan veggja skólans og í skólastarfinu sé trúnaðarmál. Persónuvernd segir í ábendingum sínum að það standist vart landslög að krefjast þess að einstaklingar sem gestkomandi eru í skólum afsali sér rétti til að ræða þau mál sem tengjast skólastarfinu sín í milli eða við aðra.

„Við byggjum á skólastefnu um skóla án aðgreiningar,“ segir Þorsteinn. Með slíkum verklagsreglum sé fyrst og fremst verið að vísa til viðkvæmra persónulegra upplýsinga um málefni einstaklinga og að þau séu ekki rædd á opinberum vettvangi. Það sé ekki hugsunin að koma í veg fyrir að fólk geti til dæmis rætt um stefnu skólanna og starfsemi eða annað slíkt. Hugsanlega þurfi að breyta orðalagi og skýra betur um hvað málið snýst. Jákvætt sé að fá ábendingar frá Persónuvernd um gott verklag. Því sé fagnað.

Foreldrar mikilvægur hluti af skólastarfinu

Framkvæmdastjóri landssamtakanna Heimilis og skóla, Hrefna Sigurjónsdóttir, segir í samtali við mbl.is að samtökin hafi fengið ýmsar ábendingar frá foreldrum vegna þessa máls. Þannig hafi foreldrum í sumum tilfellum verið tjáð að þeir gætu ekki farið með íþróttapoka í skólastofur til barnanna sinna vegna persónuverndarlaganna. Það væri hins vegar ekki rétt að það væri byggt á lögunum. Þetta þyrfti auðvitað að vera á hreinu.

„Þess utan hefur verið unnið að því í mörg ár að skólanir séu samfélag sem sé opið foreldrum og rannsóknir um árabil sýna að samstarf heimila og skóla sé af hinu góða og styðji við nám barnanna og vellíðan. Foreldrar séu auðlind sem nýta þurfi í skólastarfi. Ég held ekki að það hafi almennt verið vandamál til þessa að foreldrar trufli kennslu þótt vitanlega eigi að vera vinnufriður innan kennslustunda og áveðin mörk í þeim efnum,“ segir Hrefna.

„Það er einfaldlega búið að hafa það mikið fyrir því að fá foreldra til að taka þátt í skólastarfi að ég held að það væru einfaldlega mistök að fara að setja einhverjar óþarfa skorður í kringum það. Hins vegar er auðvitað eðlilegt að það séu reglur og viðmið séu endurskoðuð. Það er fullkomlega eðlilegt en þá þarf líka að gera það tímanlega og í samráði þannig að um eðlilegt innleiðingarferli sé að ræða en ekki að reglur breytist allt í einu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert