Slökkvistarf er í fullum gangi vegna elds sem kviknaði í einbýlishúsi á Selfossi. Tilkynning um eldinn barst laust fyrir klukkan 16.
Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, er um mikinn eld að ræða en hann gat ekki gefið meiri upplýsingar að svo stöddu.
Eldurinn logar í húsi við Kirkjuveg. Á Facebook-síðu Brunavarna Árnessýslu eru vegfarendur beðnir um að halda sig frá vettvangi til að trufla ekki störf viðbragðsaðila.
Uppfært kl. 17.47:
Lögreglan á Suðurlandi biður nágranna um að loka gluggum hjá sér til að fá ekki eitraðar gufur inn í hús.
Fólk er beðið að leita til Heilbrigðisstofnanna ef það finnur fyrir öndunaróþægindum. Það er einnig beðið um að leita til tryggingarfélaga ef það telur húsnæði sitt hafa orðið fyrir reykskemmdum.