Eldsupptök líklega af mannavöldum

mbl.is/​Hari

Lögregla telur sig hafa rökstuddan grun um að eldsupptök í einbýlishúsi á Kirkjuvegi á Selfossi, sem brann í gær, hafi verið af mannavöldum. Tveir létust í brunanum.

Búið er að taka skýrslu af öðrum þeirra sem er í haldi lögreglu vegna brunans og skýrslutökur yfir hinum aðilanum standa yfir. Fólkið, húsráðandi og gestkomandi kona, var handtekið á vettvangi brunans í gær. Ekki var hægt að ræða við þau í gær vegna þess ástands sem þau voru í.

Gera má ráð fyrir að þau verði leidd fyrir dómara síðar í dag og gæsluvarðhalds krafist yfir þeim í þágu rannsóknar málsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Búið er að flytja líkamsleifar þeirra er létust í brunanum af vettvangi og bíða þær nú krufningar. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vinnur að vettvangsrannsókn ásamt sérfræðingum Mannvirkjastofnunar.

Til­kynn­ing um eld­inn barst rétt fyr­ir klukk­an fjög­ur í gær­dag og þegar slökkvilið kom á vett­vang var húsið al­elda. Pét­ur Pét­urs­son, slökkviliðsstjóri hjá Bruna­vörn­um Árnes­sýslu, lýsti því þannig í sam­tali við mbl.is í gær að húsið hefði verið einn eld­hnött­ur, eld­ur og reyk­ur út um alla glugga.

Strax vakanði grunur var um að fólk gæti verið inni í hús­inu og fór slökkvilið því var­lega í gróf­ar aðgerðir á vett­vangi. Slökkvistarf fór fram með til­liti rann­sókn­ar­hags­muna, þar sem fljót­lega varð ljóst að mannslát hefði orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert