Tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson er ekki einn af þeim taka þátt í hópmálssókn gegn eigendum Geymslna vegna brunans sem varð í Miðhrauni í apríl. Miðað við hversu mikið sumir misstu í brunanum kvartar hann ekki mikið en segir að verst sé að missa minningarnar.
Tvö mál gegn Geymslum voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og eitt til tvö til viðbótar eru í undirbúningi.
Björgvin fór á fund sem var haldinn í Hafnarfirði fyrir þá sem íhuguðu að leita réttar síns vegna eignanna sem þeir misstu. „Ég sótti þennan fund og hlustaði á málflutning en hef ekki tekið næsta skref. Ég vil þessu fólki sem missti sitt allt það besta,“ segir hann.
„Það versta við að lenda í svona, því þetta eru dauðir hlutir, er að missa minningarnar,“ bætir hann við og á meðal annars við „analog-segulbönd sem hvergi eru til á jörðinni nema í þessu formi“. Á þeim voru tónleikaupptökur frá áttunda áratugnum, hálfkláraðar upptökur, upptökur utan að landi og lög sem komust ekki inn á plötur. Á þessum tíma var Björgvin í Ævintýri, Brimkló og Hljómsveit Björgvins Halldórssonar. Vatn og reykur komst í segulböndin og ætlar Björgvin að freista þess að endurheimta eitthvað af upptökunum með aðstoð nýjustu tækni.
„Ég hef verið duglegur að uppfæra þetta stafrænt en þetta er svo mikið. Þegar maður lendir í þessu vekur þetta mann til umhugsunar um að vera ekki að safna svona mikið af dóti í kringum sig. Ég er mikill safnari en ég hef núna tekið til hendinni og eftir þennan bruna held ég að ég hafi aldrei farið eins margar ferðir í Sorpu.“
Bréf, myndir og plaköt, ásamt gítarmögnurum og fleiri hlutum úr búslóðinni voru einnig í geymslu Björgvins. Sumt bjargaðist en annað ekki en hann segir að betur hafi farið en á horfðist. „Ég á ekki að kvarta því þarna var fólk sem ég hitti oft þarna sem missti allt. Það bara brann upp og varð ónýtt.“
Geymsla Björgvins var í horni á fyrstu hæðinni og á sama gangi var vinkona hans Sigga Beinteins með munina sína og skreytingar fyrir jólatónleikana sína. Það eyðilagðist allt.
Björgvin nefnir að tryggingafélagið Sjóvá hafi hjálpað honum við missinn og er ánægður með þá aðstoð. Aðspurður segist hann ekki geta sagt til um hversu miklu hann tapaði í aurum talið. „Þetta var svo mikið af minningum, það er ekki hægt að setja verðmiða á það.“
Hann kveðst hafa safnað miklu um samferðarmenn sína í gegnum tíðina. „Það er góður „djókur“ þegar samferðarmenn og félagar hringja í mig og segja: „Áttu hérna þessa upptöku eða þetta plakat? Þá segi ég yfirleitt: „Hvaða lit viltu?“ Það verður einhver að halda þessu, þetta eru menningarverðmæti.“