Telja ljóst að fólkið hafi verið í húsinu

Frá aðstæðum í gærkvöldi.
Frá aðstæðum í gærkvöldi. mbl.is/Hari

„Við erum ekki búin að afhenda formlega vettvanginn enn þá, það er enn þá vakt á húsinu. En það verður ekkert farið í frekari vinnu þar fyrr en fer að birta,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við mbl.is vegna eldsvoðans í einbýlishúsi við Kirkjuveg á Selfossi í gær. Rannsóknarteymi frá höfuðborgarsvæðinu mun vinna með lögreglunni á Suðurlandi að rannsókn málsins. 

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi að ekki hafi verið mögulegt að taka skýrslu af tveimur einstaklingum sem handteknir voru í gær í tengslum við mikinn eldsvoða, húsráðanda og gestkomandi konu, vegna ástands þeirra. Óttast er að kona og karlmaður, sem orðið hafi innlyksa á efri hæð hússins, hafi farist í eldsvoðanum. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest enn. Eldsupptök eru ókunn.

Húsið er gamalt, að því er segir í tilkynningunni, hæð og ris og einangrað með frauðplasti, að minnsta kosti að hluta. Þar segir enn fremur að ekki verði hægt að staðreyna að konan og karlmaðurinn hafi látist í eldsvoðanum fyrr en húsið er kólnað og vettvangurinn hafi verið tryggður vegna hrunhættu. Gert er ráð fyrir að vinna við það hefjist innan skamms. Þá segir að aðstandendum fólksins sem saknað er hafi verið kynnt staða málsins. 

Spurður um fólkið sem talið er að hafi látist í eldsvoðanum segir Pétur að talið sé víst að fólkið hafi verið í húsinu þegar eldurinn kom upp. Slökkviliðsmenn hafi ekki verið sendir upp á efri hæðina en talið sé ljóst hvar fólkið hafi verið í húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert