Fólkið sem handtekið var í tengslum við bruna í einbýlishúsi á Selfossi í fyrradag sætir einangrun í gæsluvarðhaldi til þess að koma í veg fyrir að það geti haft áhrif á rannsókn málsins. Skýrslur verða ekki teknar af fólkinu yfir helgina. Þetta segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá því að fólkið sætti einangrun samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurði.
Þegar krafa er gerð um gæsluvarðhald er tekið fram hvort um almenna gæslu sé að ræða, að sögn Odds, þar sem þeir sem því sæta mega vera í samskiptum við aðra, eða hvort þeir skulu sæta einangrun svo ekki sé hægt að samræma framburði.
„Dagurinn í dag hefur farið í að safna gögnum og ná utan um þær aðgerðir sem búið er að vinna og gera áætlanir um það sem á að gera næst,“ segir hann.
Að sögn Odds hefur lögreglan fengið til sín fjölda fólks, allt frá því að atburðurinn átti sér stað, með ýmsar upplýsingar og mun sú upplýsingaöflun standa áfram yfir um helgina.
Húsið var afhent tryggingafélagi í gær og sinnir lögregla því ekki lengur vöktun á vettvangi. Búið er að setja net yfir húsið til að koma í veg fyrir að asbest úr klæðningu þess fjúki, en stefnt er að því að húsið verði rifið eftir helgi. Fram kom í máli Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, að leyfi þyrfti frá heilbrigðis- og vinnueftirliti til þess að rífa húsið vegna magns asbests. Samkvæmt upplýsingum sem Oddur hefur eru þau mál í góðum farvegi.