Rannsókn stendur enn yfir á eldsvoðanum á Selfossi þar sem eldur kom upp í einbýlishúsi við Kirkjuveg með þeim afleiðingum að kona og karlmaður týndu lífi. Þrír einstaklingar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarinnar.
„Menn eru núna komnir úr þeim fasa að tryggja gögn til þess að hægt yrði að fara fram á gæsluvarðhald og komnir á þann stað að halda rannsókninni áfram. Þetta er þannig komið í rólegri farveg,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Eldsupptök liggja ekki fyrir en talið er að þau hafi verið af mannavöldum.
Skýrslur hafa verið teknar af fólkinu sem grunað er um aðkomu að eldsvoðanum, þar á meðal er húsráðandi og gestkomandi kona, en fólkið sem lést var einnig gestkomandi í húsinu. Oddur segir að vafalaust gert aftur á einhverjum tímapunkti.
Þá hafi fólk verið að hafa samband við lögregluna sem orðið hafi vitni að einhverju í tengslum við eldsvoðann. Lögreglan hafi meðal annars fengið myndir, myndskeið og önnur gögn sem geta skipt máli. Verið sé að púsla myndinni af því sem gerðist saman.
Spurður hvort eitthvað frekara liggi fyrir varðandi eldsupptökin segir Oddur að vinna hafi farið fram á vettvangi í gær í þeim efnum og síðan verði unnið úr þeim gögnum og niðurstöðu skilað. Það verði þó öruggkega ekki í dag en væntanlega eftir helgi.