Kæra gæsluvarðhaldsúrskurðar vegna brunans í einbýlishúsi við Kirkjuveg 18 á Selfossi síðastliðinn miðvikudag hefur engin áhrif á rannsókn málsins. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Karl og kona voru handtekin á vettvangi brunans á miðvikudag og þau í kjölfarið úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald. Fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi í morgun að konan hefði kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar. Tvennt lést í brunanum.
Ef kærunni er formlega lýst fyrir Landsrétti í dag þá hefur lögreglan á Suðurlandi daginn á morgun til að skila rökstuðningi, að sögn Odds. Landsréttur getur því í fyrsta lagi úrskurðað í málinu á miðvikudag, en gæsluvarðhaldið rennur út á fimmtudag.
Fólkið var úrskurðað í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en það hefur sætt einangrun. Oddur gerir ekki ráð fyrir að fólkið verði yfirheyrt í dag, en skýrslutökur fóru fram yfir þeim fyrir helgi.
Oddur segir nú unnið úr þeim gögnum sem búið er að afla. Meðal annars úr samtölum við möguleg vitni. Þá hafa skýrslutökur af sakborningum verið undirbúnar og unnið úr rannsóknargögnum á vettvangi. Vinna fer fram hjá lögreglu, tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Mannvirkjastofnun og fleiri aðilum eftir því sem við á.