Kærir gæsluvarðhald til Landsréttar

Húsið var alelda þegar slökkvilið kom á vettvang á miðvikudag.
Húsið var alelda þegar slökkvilið kom á vettvang á miðvikudag. mbl.is/​Hari

Konan sem handtekin var í tengslum við bruna í einbýlishúsi við Kirkjuveg 18 á Selfossi síðastliðinn miðvikudag, og úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald, hefur kært úrskurðinn til Landsréttar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Konan var gestkomandi í húsinu skömmu áður, eða þegar eldurinn kom upp. Karlmaður, sem var húsráðandi, var einnig handtekinn og jafnframt úrskurðaður í vikulangt varðhald. Fólkið var úrskurðað í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hefur sætt einangrun. Bæði voru þau handtekin á vettvangi.

Fólkið var ekki yfirheyrt um helgina, en fram kemur í tilkynningu lögreglu að áfram sé unnið að rannsókn málsins. Meðal annars sé unnið úr gögnum sem aflað hefur verið með samtölum við möguleg vitni. Þá hafa skýrslutökur af sakborningum verið undirbúnar og unnið úr rannsóknargögnum á vettvangi. Vinna fer fram hjá lögreglu, tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Mannvirkjastofnun og fleiri aðilum eftir því sem við á.

Lögregla segir rannsóknina á viðkvæmu stigi og því sé ekki hægt að gefa frekari upplýsingar um hana að svo stöddu.

Greint frá frá því fyrir helgi að lögregla telji sig hafa rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum. Tvennt lést í brunanum, karl og kona á fimmtugsaldri.

Til­kynn­ing um eld­inn barst rétt fyr­ir klukk­an fjög­ur í miðvikudag og þegar slökkvilið kom á vett­vang var húsið al­elda. Pét­ur Pét­urs­son, slökkviliðsstjóri hjá Bruna­vörn­um Árnes­sýslu, lýsti því þannig í sam­tali við mbl.is að húsið hefði verið einn eld­hnött­ur, eld­ur og reyk­ur út um alla glugga.

Strax vak­naði grun­ur var um að fólk gæti verið inni í hús­inu og fór slökkvilið því var­lega í gróf­ar aðgerðir á vett­vangi. Slökkvistarf fór fram með til­liti til rann­sókn­ar­hags­muna, þar sem fljót­lega varð ljóst að mannslát hefði orðið.

Í samtali við mbl.is fyrir helgi vildi Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, ekki segja til um það hvort grunur væri um íkveikju, en hann sagði að allar kenningar yrðu kannaðar. Lögregla færi „inn í þetta sem opið mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka