Verða að auglýsa deiliskipulag að nýju

Virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum. Mynd úr safni.
Virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Auglýsing á breytingum deiliskipulags vegna Hvalárvirkjunar sem birt var í Lögbirtingarblaðinu í síðasta mánuði, birtist tveimur dögum of seint og þurfti hreppsnefnd Árneshrepps því að taka málið fyrir að nýju, að því er greint var frá á fréttavefnum Bæjarins besta síðasta fimmtudag.

„Það er leiðinlegt þegar eitthvað svona kemur upp á, en það er sem betur fer hægt að leiðrétta svona,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps í samtali við mbl.is.

Hún kveður hreppsnefnd hafa fundað um málið á fimmtudag og þá samþykkt tillögu um að auglýsa deiliskipulagstillögurnar að nýju skv. 41. gr. Skipulagslaga. Eva gerir ráð fyrir að auglýsingin verði birt í næsta tölublaðið Lögbirtingarblaðsins og skipulagsferlið verði þá endurtekið þaðan í frá.

Endurbirting auglýsingarinnar mun valda töfum á framkvæmdaferlinu. Segir BB talið að það það geti tekið allt að þremur mánuðum að ljúka ferlinu og mun útgáfa framkvæmdaleyfis til Vesturverks ehf. tefjast sem því nemur.

 „Það er víst ekki hægt að komast hjá því,“ segir Eva og samsinnir því að tafir verði. Hún treystir sér þó ekki til að áætla hversu miklar þær verði. „Þetta er svo flókið þetta ferli, þannig að það er voða erfitt að segja.“

Mannleg mistök valdi því að þess var ekki gætt að auglýsingin birtist innan tiltekinnar, fyrirfram ákveðinnar, dagsetningar.

Fljótlega eftir að auglýsingin birtist barst kæra vegna þess að auglýsingin var of seint á ferðinni, en hart hefur verið deilt um fyrirhugaða virkjun.

Eva staðfestir að vel sé fylgst með fyrirhuguðum framkvæmdum. „Það er líka bara allt í lagi,“ segir hún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert