Karl og kona, sem handtekin voru í tengslum við brunann í einbýlishúsi á Kirkjuvegi 18 á Selfossi í síðustu viku, verða yfirheyrð í dag. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Fólkið var handtekið á vettvangi brunans og voru þau bæði úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald. Konan kærði hins vegar úrskurðinn til Landsréttar sem felldi hann úr gildi í gær. Í framhaldi af niðurstöðu Landsréttar hóf hún afplánun fangelsisvistar sem hún átti óafplánaða vegna eldri dóms.
Karlmaðurinn sætir enn gæsluvarðhaldi en það rennur út á morgun. Oddur segir það væntanlega ekki koma í ljós fyrr en í fyrramálið hvort farið verði fram á framlengingu gæsluvarðhalds.