Kveikti í pizzakössum og gardínum

Karlmaður, sem situr í gæsluvarðhaldi vegna eldsvoðans á Selfossi í lok síðasta mánaðar þar sem kona og karl létu lífið, er sagður hafa komið eldinum af stað með því að kveikja í pizzakössum og gardínum í húsinu. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Suðurlands þar sem kona, sem einnig var í húsinu, var úrskurðuð í gæsluvarðhald en Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi á þriðjudaginn. Úrskurður Landsréttar var birtur í dag.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að karlmaðurinn, sem er húsráðandi, og konan hafi verið handtekin á vettvangi eftir að þau hafi bæði haft á orði við lögreglumenn að hann hefði kveikt í húsinu. Voru þau bæði í annarlegu ástandi. Fólkið var í kjölfarið fært á lögreglustöð og vistuð í fangaklefa vegna ástands þess þar til hægt yrði að taka af því skýrslu. Karlinn og konan hafi síðan í framhaldinu verið yfirheyrð vegna málsins. 

Konan hafi við yfirheyrslur greint frá því að maðurinn hafi verið að kveikja í pizzakössum á stofugólfi á neðri hæð einbýlishússins við Kirkjuveg sem brann þegar hún kom í húsið. Hún hafi skammað hann og hellt bjór yfir eldinn til þess að slökkva hann. Þá hafi annað af fólkinu sem lést í eldsvoðanum komið niður af neðri hæðinni og átt í einhverjum orðaskiptum eða rifrildi við manninn en farið síðan aftur upp á efri hæðina.

Maðurinn hefði í framhaldinu borið eld með kvikjara að gardínum aftan við sófa í stofunni. Konan sagðist hafa farið í svokallað „black-out“ í kjölfarið og ekki munað eftir því sem gerðost fyrr en hún hafi verið komin út úr húsinu með manninum. Við yfirheyrslur sagðist maðurinn muna eftir því að hafa kveikt í pappakassa í stofunni. Hann myndi óljóst eftir því sem gerðist en skyndilega hafi verið kominn eldur um allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert