Úðuðu vatni vegna asbestmengunar

Framkvæmdir við niðurrif hússins stóðu yfir í dag.
Framkvæmdir við niðurrif hússins stóðu yfir í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Beita þurfti sérstökum aðferðum við niðurrif á húsinu sem brann á Kirkjuvegi á Selfossi vegna þess að asbest var á klæðningu þess að utan og að hluta til að innan.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu úðuðu vatni á húsið til að koma í veg fyrir að asbestmengun breiddist út í andrúmsloftið þegar klæðningin brotnaði við niðurrifið.

Að sögn Þorsteins Þorsteinssonar, hópstjóra eignatjóna hjá VÍS, eru verktakar búnir að rífa húsið niður og verður öllu pakkað saman, það sett í gám og keyrt í Álfsnes til urðunar. Hann reiknar með því að aðgerðum á staðnum ljúki að fullu á morgun þegar búið verður að skafa mengaðan jarðveg með asbesti ofan af lóðinni, eða um tíu sentimetra lagi í kringum húsið.

Í heildina voru 15 til 20 manns að störfum við niðurrifið í dag og tók það nokkra klukkutíma. Allir voru með grímur fyrir andlitinu vegna asbestsins, sem er lífshættulegt efni. Lögreglan girti svæðið einnig af þannig að almenningur kæmist ekki nálægt.

Aðspurður segir Þorsteinn að undirbúningur niðurrifsins hafi tekið um það bil viku. Fyrst þurfi að senda umsókn til heilbrigðiseftirlitsins, Vinnueftirlitsins og byggingarfulltrúa með lýsingu á því hvernig niðurrifið skyldi fara fram. Hana þurfi síðan að samþykkja. Hann segir að allir hafi brugðist fljótt við, þar á meðal sveitarfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert