Fyrirtaka í þremur málum fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku þar sem eigendur Geymslna í Miðhrauni eru krafðir um í kringum 20 milljónir króna samanlagt í skaðabætur vegna brunans sem þar varð í apríl.
Um fjörutíu mál til viðbótar bíða þess að verða höfðuð ef niðurstaðan í málunum þremur verður jákvæð fyrir fólkið sem átti eigur sem urðu eldi að bráð í Geymslum en RÚV greindi fyrst frá.
Við fyrirtökuna í næstu viku skila lögmenn Geymslna greinargerð og í framhaldinu verður málinu væntanlega úthlutað til dómara sem mun fara með málið. Dómarinn mun væntanlega boða til þinghalds innan mánaðar frá því að fyrirtakan átti sér stað, að sögn Guðna Á. Haraldssonar hjá Löggarði, lögmanns hópsins sem leitar réttar síns.
Fram kemur í einni af stefnunum vegna málsins, sem mbl.is hefur undir höndum, að upphafleg brunahönnun hússins hafi gert ráð fyrir vatnsúðakerfi í öllu húsinu. Því hafi aftur á móti verið breytt þegar Latibær kom með starfsemi sína í húsnæðið við hliðina. Þegar Drífa h.f. kom síðar inn með lager Icewear í sama húsnæði hafi kerfið ekki verið sett upp heldur látið við það sitja að húsnæðið væri án vatnsúðakerfis.
Í stefnunni kemur einnig fram að þeir sem náðu að bjarga hlutum úr eldsvoðanum hafi ekki fengið að leigja geymslur að nýju undir þá muni.
Þar segir sömuleiðis að í svarbréfi lögmanns Geymslna í lok september hafi komið fram að fyrirtækið gæti ekki skilað þeim munum sem voru geymdir í húsnæðinu. Áréttað er að samningurinn við þá sem áttu þar muni hafi verið húsaleigusamningur og ekki er vilji fyrir því að fara í viðræður um bætur til handa eigendum þeirra muna sem eyðilögðust.
Í stefnunni kemur fram að þrátt fyrir að samningurinn sé sagður vera húsaleigusamningur hafi ekki verið vitnað til ákvæða húsaleigulaga í skilmálum Geymslna fyrir viðskiptavini.