„Málinu á að vera lokið“

Gestir þáttarins, Katrín Júlíusdóttir og Friðjón R. Friðjónsson, ræddu pólitíska …
Gestir þáttarins, Katrín Júlíusdóttir og Friðjón R. Friðjónsson, ræddu pólitíska landslagið í þjóðmálaþættinum Þingvöllum í morgun. Skjáskot/k100.mbl.is

„Ástæðan fyrir því að þetta mál kemur fram er að það er farið í gegnum feril og málinu á þannig, að mínu mati, að vera lokið,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar, um mál Ágústs Ólafs Ólafssonar, núverandi þingmanns Samfylkingarinnar, í þjóðmálaþættinum Þingvöllum með Björtu Ólafsdóttur á K100 í morgun. Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill hjá KOM var einnig gestur í þættinum.

Aðspurð telur Katrín eðlismun vera á máli Ágústs, sem hlaut áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar fyrir áreitni, og Klaustursmálinu. Í síðarnefndu máli sé hópur að tala illa um sitt samstarfsfólk en í hinu fyrrnefnda eigi sér stað atvik milli tveggja einstaklinga.

Björt spurði Katrínu hvort Ágúst ætti að segja af sér og þá svaraði hún: „Ég vona ekki. Ég er þeirrar skoðunar að ef við ákveðum að setja upp feril þá eigi sá ferill að vera lúkning á málinu. Það er örugglega hræðilegt að fara í gegnum þann feril, að vera yfirheyrður af siðanefnd, það er örugglega ferill sem tekur gríðarlega á. Ef sá ferill hefði ekki verið fyrir hendi þá hefði þetta verið í kjaftagangi einhversstaðar.“

Síðar í þættinum tjáði almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson skoðun sína á málinu, aðspurður hvort honum þyki munur á Klaustursmálinu og máli Ágústs sagði hann að „í sjálfu sér væri enginn stórkostlegur munur þarna á“.

„Þarna hafa þingmenn greinilega gengið of langt. Í sjálfu sér er enginn munur þarna á, það er enginn eðlismunur á þessu tvennu, þannig séð en það er samt sem áður munur vegna þess að það er ferli og það virðist vera ákveðin iðrun til staðar, eitthvað sem maður hefur ekki endilega séð, sagði Friðjón.

Því næst spurði Björt hvaða máli það skipti að ferli hafi verið til staðar, þar sem það að Ágúst hafi verið sekur um óvandaða framkomu og að atburðurinn sjálfur væri til umræðu. Þá taldi Friðjón að ferillinn skipti þolandann máli til að fá lúkningu á málinu og tók Katrín undir og sagði Ágúst hafa beðist afsökunar skilyrðislaust.

„Í þessum bransa sem ég vinn í, þá er ekkert en. Það er það sem við segjum við viðskiptavini okkar, þú bara biðst afsökunar, hreinsar málið og gerir það eins vel og þú getur,“ sagði Friðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert