Skilorðsbundið fangelsi í skútumáli

Hvarf frönsku skútunnar Inook uppgötvaðist aðfaranótt sunnudagsins 14. október. Í …
Hvarf frönsku skútunnar Inook uppgötvaðist aðfaranótt sunnudagsins 14. október. Í ljós kom að Þjóðverji nokkuð hafði numið hana á brott. Ljósmynd/Torfi Einarsson

Þjóðverjinn, sem tók skútuna Inook úr höfninni á Ísafirði 14. október, var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir nytjastuld. Hann greiðir þá sakarkostnað upp á rúma milljón króna.

Maðurinn var ákærður fyrir þjófnað á skútunni og til vara nytjastuld, glæp, sem felst í því að nota eigur annarra manna í leyfisleysi þó án ásetnings um að slá eign sinni á þær. Hann neitaði í fyrstu sök en gekkst svo við því að hafa tekið skútuna ófrjálsri hendi en niðurstaða dómsins var þó sú, að ekki hafi verið fótur fyrir því að ætla hinum dæmda ásetning um þjófnað á skútunni, heldur aðeins nytjastuld.

Hann komst inn í skútuna með því að brjóta lás með verkfærum. Hann setti bátinn í gang og sigldi af stað. Fyrir dómnum sagðist hann svo ekki hafa verið með sjálfum sér þegar hann gerði þetta en hefði eins og tveimur tímum síðar „vaknað til meðvitundar, en þá hefði hann ekkert getað gert“.

Þá var ekki annað séð af dómnum en að ákærði hafi verið samvinnuþýður við rannsóknaraðila meðan á rannsókn stóð og þar að auki hafi á endanum óverulegt tjón hlotist af verknaði hans. Refsingin var af þessum sökum nokkuð mild: fullnustu hennar er frestað um sinn og hún skal falla niður að liðnum tveimur árum.

Hérna má lesa dóminn á vef héraðsdómstóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert