Engir Íslendingar hafa óskað aðstoðar utanríkisráðuneytisins vegna náttúruhamfara sem urðu í Indónesíu í gær þegar flóðbylgja skall á ströndum eyjanna Súmötru og Jövu. Að sögn Sveins Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins hefur enginn beiðst aðstoðar borgaraþjónustu ráðuneytisins vegna atburðanna. Ekki er vitað um ferðir Íslendinga á svæðinu.
222 eru látnir af völdum flóðbylgjunnar, 843 slasaðir og 28 er enn saknað. Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi látist, slasast eða sé saknað á hamfarasvæðum.