Allir slasaðir komnir á spítala

Kranabíll er kominn á brúna yfir Núpsvötn og verður hann notaður til að hífa jeppa bresku fjölskyldunnar upp á brúna svo hægt sé að koma honum af vettvangi. Áfram verður lokað fyrir umferð á Suðurlandsvegi í báðar áttir á meðan rannsókn á vettvangi fer fram. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Þyrlur Landhelgisgæslu Íslands hafa flutt fjóra alvarlega slasaða einstaklinga á Landspítalann í Fossvogi. Þrír aðrir létust í slysinu, þar af að minnsta kosti eitt barn. Fólkið sem var í bíln­um voru er­lend­ir ferðamenn með breskt rík­is­fang.

Enn er ekkert vitað um orsök slyssins en engin hálka var á vettvangi þegar slysið átti sér stað. Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, sagði þó í samtali við mbl.is fyrr í dag að stálplötur í gólfi brúarinnar verði sleipar við aðstæður eins og komu upp í morgun.

Neyðarlínu barst í morg­un kl. 09:42 til­kynn­ing um að bif­reið hefði verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn og seg­ir Odd­ur bíln­um, sem var jeppi, hafa verið ekið í gegn­um brú­ar­hand­riðið og út af brúnni sem sé tölu­vert há. Hann hafi svo endað niðri á áraur­un­um fyr­ir neðan, en ekki í ánni.

Banaslys við Núpsvötn.
Banaslys við Núpsvötn. Kort/mbl.is

„Það tek­ur tíma að koma búnaði þarna að,“ sagði Oddur í samtali við mbl.is fyrr í dag og að nokkuð snúið væri að kom­ast að slysstaðnum vegna ár­bakk­anna.

Spurður hvort hálka hafi verið á veg­in­um er slysið varð seg­ir Sveins Kristján svo ekki vera. Í brú­argólf­inu séu þó stál­plöt­ur sem verði sleip­ar við aðstæður eins og voru á svæðinu í morg­un.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka