Flest slys á einbreiðum brúm á Íslandi hafa orðið á brúnni yfir Núpsvötn og eru þau orðin fjórtán talsins frá árinu 2000, þar af eru tvö alvarleg. Hvorki brúin né vegrið hennar uppfylla nýjustu staðla segir forstöðumaður hönnunardeildar hjá Vegagerðinni í samtali við mbl.is.
Ungt barn og tveir fullorðnir létust í bílslysi í morgun þegar jeppi fór í gegnum vegriðið á brúnni yfir Núpsvötn og lenti á áraurunum fyrir neðan hana. Fjórir til viðbótar voru fluttir með þyrlum alvarlega slasaðir á sjúkrahús.
„Þetta er annað alvarlega slysið af fjórtan frá árinu 2000. Það voru þrettán slys og eitt af þeim alvarlegt. Frá því að menn fóru að taka þetta saman formlega frá árinu 2000 þá eru flest slys á þessari brú af einbreiðum brúm,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.
Af þessum fjórtan slysum frá árinu 2000 hafa átta þeirra orðið frá árinu 2015. Guðmundur segir að þetta hafi verið skoðað og verði gert áfram.
„Við höfum haft þetta til hliðsjónar í forgangi við breikkun á einbreiðum brúm. Það er verið að horfa á þessa brú sem aðal brúna. Ég hugsa að þetta sé eina brúin með fleiri en tíu slys,“ segir Guðmundur.
Orsök slyssins er ókunn á þessari stundu og óvíst hvort hálka hafi verið á þessum slóðum þegar slysið átti sér stað. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að brúargólfið var þakið með stálplötum sem geta verið sleipar þegar blautt er eða rakt er í lofti. Guðmundur segir það ekki algengt að stálplötur séu notaðar en brúin sé timburbrú og slitlag á slíkum brúm sé verndað með slíkum stálplötum.
„Þegar umferðin er orðin svona mikil og það er hálka líka þá hefur þetta [stálplötur í brúargólfi] verið talið minnka líkurnar á hálku að setja svona járnplötur eða járnmottur,“ útskýrir Guðmundur og bætir því við að þær geti þó orðið erfiðar í mikilli umferð.
„En ég held það sé skárra en þegar það er bara notað timbur. Timbrið verður mjög hált og þegar það er blautt eru járnplötur betri. En það er ekki jafn gott og malbikið.“
Guðmundur segir brúarsmíðina ekki uppfylla nýjustu staðla og að hún sé ekki ásættanleg miðað við umferðarþunga í dag. „Þetta þótti ásættanlegt fyrir 40 til 50 árum þegar umferð var rosalega lítil,“ segir hann og spurður hvort það teljist ásættanlegt í dag segir hann:
„Nei langt frá því enda erum við að reyna skipta þessu út. Umferðarþróun hefur verið svo rosalega hröð núna á síðustu 5 árum og við höfum engan veginn náð að fylgja henni eftir.“
Þá uppfylla vegriðin á brúnni ekki kröfur sem gerðar eru í nútímanum enda orðin hátt í 40 til 50 ára gömul.
„Vegriðin eru ekki miðað við nýjustu staðla á þessari brú og eldri brúm. En þau ættu almennt að halda fólksbíl inni á brúnni,“ útskýrir Guðmundur og bætir við: „Í dag eru vegrið bæði sterkari og hærri en flest vegrið af þessari týpu ættu að halda fólksbílum inni á brúnni ef allt er eins og það á að vera.“
Þá segir hann að það séu ekki mörg tilfelli þar sem bílar hafa farið í gegnum vegrið sem slíkt. Vegagerðinni er ekki kunnugt um að ástandi þess hafi verið ábótavant.