Ferðamennirnir sem lentu í umferðarslysinu við Núpsvötn í morgun voru allir breskir ríkisborgarar fæddir á Indlandi. Tveir bræður voru í bílnum og fjölskyldur þeirra. Eiginkonur þeirra létust báðar og eitt mjög ungt barn. Þetta staðfestir fulltrúi indverska sendiráðsins í samtali við mbl.is.
Indverska sendiráðið hefur haft samband við þriðja bróðurinn sem búsettur er í Bretlandi. Líklegt er að hann komi til Íslands fljótlega. Armstrong Changsang, sendiherra Indlands á Íslandi, heimsótti spítalann í dag og ræddi við lækna og sjúkrahúsprest.
Talsmaður breska sendiráðsins á Íslandi staðfestir, í samtali við mbl.is, að um ferðamennirnir sem lentu í slysinu væru breskir ríkisborgarar og að sendiráðið myndi veita fjölskyldum þeirra aðstoð og upplýsingar.
„Við erum að aðstoða fjölskyldur breskra ríkisborgara sem lentu í bílslysinu og erum í stöðugu sambandi við stjórnvöld á Íslandi,“ segir í skriflegu svari frá skrifstofu utanríkismála og breska samveldisins í London til mbl.is.
Ekki er vitað hversu alvarlega slasaðir þeir eru sem voru fluttir á sjúkrahús. Beita þurfti klippum til að ná þeim úr bílflakinu, sem var jeppi af gerðinni Toyota Landcruiser. Vitað er að meðal þeirra eru tveir fullorðnir bræður og tvö börn á aldrinum 7 til 9 ára.
Lögreglan á Suðurlandi annast rannsókn málsins með aðstoð tæknideildar lögreglu og annarra deilda lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
Fréttin var uppfærð kl. 18:46.