Fara á vettvang banaslyss á morgun

Banaslysið átti sér stað á brúnni yfir Núpsvötn.
Banaslysið átti sér stað á brúnni yfir Núpsvötn. Kort/mbl.is

Rannsóknarnefnd samgönguslysa fer á vettvang banaslyssins á brúnni yfir Núpsvötn snemma í fyrramálið þar sem þrír einstaklingar létust í morgun og fjórir til viðbótar slösuðust. Þetta staðfestir Sævar Helgi Lárusson, hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is.

Eitt ungt barn og tveir fullorðnir létust í slysinu sem átti sér stað í morgun. Fjórir einstaklingar til viðbótar, tveir fullorðnir og tvö börn á aldrinum 7 til 9 ára, voru fluttir með þyrlum á sjúkrahús til aðhlynningar. Ekki er vitað hversu alvarlega þeir eru slasaðir en beita þurfti klippum til að ná þeim úr bílflakinu sem var af gerðinni Toyta Landcruiser. Allir í bílnum voru erlendir ríkisborgarar.

Sendiráð Bretlands og sendiráð Indlands eru að safna upplýsingum um farþegana, að því er RÚV greindi frá, en farþegarnir voru allir með breskt ríkisfang.

Venjan að fara strax á vettvang

Unnið er að því að fjarlægja bílflakið af vettvangi og þá vinna starfsmenn Vegagerðarinnar að viðgerð á handriðinu á brúnni. Suðurlandsvegur var lokaður í báðar áttir í margar klukkustundir en opnað hefur verið fyrir umferð á nýjan leik.

Venjan er að rannsóknarnefndin fari á vettvang slyss eins fljótt og auðið er en það var ekki mögulegt í dag. Sævar telur að það muni ekki hafa áhrif á rannsóknina að búið verði að fjarlægja bílinn og opna fyrir umferð á brúnni þegar rannsóknarnefndin fær fyrst aðgang að vettvangi.

„Það sem vakir fyrir okkur er að reyna komast að orsökum eða sennilegum orsökum slyssins og reyna að finna út hvað hefði getað komið í veg fyrir slysið og eða mikil meiðsli. Ef það tekst þá reynum við að koma ábendingum til þar til bærra aðila,“ segir Sævar.

Sævar Helgi Lárusson hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Sævar Helgi Lárusson hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Mynd/mbl.is

Brúargólfið verður rannsakað

Enn er ekkert vitað um orsök slyssins en ekki er talið að hálka hafi verið á vettvangi. Í gólfi brúarinnar eru aftur á móti stálplötur sem geta orðið mjög sleipar við aðstæður eins og mynduðust í morgun. Sævar gat ekki sagt til um það hvort algengt væri að slíkar stálplötur væru notaðar í brúargólfum en segir að stálplöturnar séu verði rannsakaðar.

„Ég þekki það ekki nákvæmlega [hvort stálplötur séu mjög sleipar]. Það er eitt af því sem verður rannsakað, af hverju ökumaðurinn missir stjórn á bílnum. Vonandi náum við að leiða það í ljós.“

Þá segir Sævar ekki útilokað að aðkoma annars bíls hafi valdið slysinu en á þessari stundu sé ekki talið að það hafi verið raunin. „Þetta er nú einbreið brú, mjög löng með útskotum. Það er ekkert útilokað en miðað við þær fregnir sem ég hef fengið þá var það ekki raunin,“ segir Sævar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert