Sjö manns eru slasaðir, þar af einhverjir alvarlega, eftir að bíll fór út af veginum við brúna yfir Núpsvötn austan við Kirkjubæjarklaustur um tíuleytið í morgun. Verður Suðurlandsvegur lokaður í báðar áttir um óákveðinn tíma vegna slyssins.
Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi voru að minnsta kosti sjö manns í bílnum sem fór út af og eru einhverjir þeirra alvarlega slasaðir.
Lögregla, sjúkrabílar og björgunarsveitir eru komin á staðinn og hlúa nú að fólkinu. Þá eru tvær þyrlur frá Landhelgisgæslunni á leiðinni á slyssstað. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu voru þrjár björgunarsveitir af Kirkjubæjarklaustri, úr Öræfum og frá Höfn sendar á staðinn.
Að því er fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi er ekki gert ráð fyrir að vegurinn verði opnaður aftur næstu klukkutímana.
Fréttin hefur verið uppfærð.