Þrír látnir eftir umferðarslys

mbl.is

Þrír eru látnir og fjórir til viðbótar eru alvarlega slasaðir eftir bílslys sem varð við brúna við Núpsvötn nú í morgun.

Neyðarlínu barst í morgun kl. 09:42 tilkynning um að bíl hafi verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn, í gegn um vegriðið þar og niður á áraurana þar fyrir neðan. Sjö manns voru í bílnum.

Var Suðurlandsvegi lokað í báðar áttir í kjölfar slyssins.

Allir viðbragðsaðilar voru sendir á staðinn og er björgunarlið frá nálægum þéttbýliskjörnum komið á staðinn, en einnig er von á tveimur þyrlum frá Landhelgisgæslunni.

Stjórnstöð almannavarna á Suðurlandi hefur verið virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi.  Suðurlandsvegur er lokaður og ljóst að svo verður eitthvað fram eftir degi vegna vinnu við björgun og rannsókn, en engin hjáleið er í boði framhjá vettvangi. 

Uppfært kl. 12:42

Í upphaflegri tilkynningu frá lögreglunni var talað um að fjórir hefðu látist í slysinu. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögreglujónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir hins vegar að þrír séu látnir, þar á meðal börn. Fjórir eru slasaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert