Þyrlurnar lagðar af stað með fjóra slasaða

Slasaðir fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi nú um kl. …
Slasaðir fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi nú um kl. 13. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú lagðar af stað á Landspítalann með þá fjóra sem slösuðust í alvarlegu umferðarslysi við Núpsvötn í morgun að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. Þrír létust í slysinu og eru börn þeirra á meðal.

Lögregla greindi frá því morgun að fjórir af þeim sjö sem í bílnum voru hefðu látist og að hinir þrír væru alvarlega slasaðir. Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli sagði hins vegar í samtali við mbl.is nú fyrir skemmstu að þrír væru látnir, þar á meðal börn, en fjórir væru alvarlega slasaðir. 

Fólkið sem var í bílnum voru erlendir ferðamenn með breskt ríkisfang.

Þrír létust í slysinu og fjórir eru alvarlega slasaðir.
Þrír létust í slysinu og fjórir eru alvarlega slasaðir. Kort/mbl.is

Neyðarlínu barst í morgun kl. 09:42 tilkynning um að bifreið hefði verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn og segir Oddur bílnum, sem var jeppi, hafa verið ekið í gegnum brúarhandriðið og út af brúnni sem sé töluvert há. Hann hafi svo endað niðri á áraurunum fyrir neðan, en ekki í ánni.

„Það tekur tíma að koma búnaði þarna að,“ segir hann og kveður nokkuð snúið að komast að slysstaðnum vegna árbakkanna. Verið var að ljúka við að koma hinum slösuðu um borð í þyrlur Landhelgisgæslunnar þegar mbl.is ræddi við hann og segir hann rannsókn á slysstað því næst taka við, en orsakir þess liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Spurður hvort hálka hafi verið á veginum er slysið varð segir Sveins Kristján svo ekki vera. Í brúargólfinu séu þó stálplötur sem verði sleipar við aðstæður eins og voru á svæðinu í morgun.

Önnur af þyrlunum sést hér lenda við Landspítalann í Fossvogi.
Önnur af þyrlunum sést hér lenda við Landspítalann í Fossvogi. Ljósmynd/Jóhann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert