Lögreglan á Suðurlandi bíður þess að ná tali af bræðrunum sem voru í bifreiðinni sem fór fram af brúnni við Núpsvötn í gær. Í bílnum voru bræðurnir tveir, eiginkonur þeirra og þrjú börn. Konurnar tvær létu lífið og ellefu mánaða ungabarn.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kom fram að mennirnir tveir hafi verið of þungt haldnir í dag til þess að lögregla gæti tekið af þeim skýrslu. Annað barnanna tveggja sem lifðu slysið af er alvarlega slasað og annar bróðirinn hlaut beinbrot og höfuðáverka.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, vildi ekki tjá sig um líðan fólksins í samtali við mbl.is að öðru leyti en að bræðurnir hafi ekki verið til viðtals í dag.