Bresk dagblöð greina í dag frá nöfnum fólksins sem var um borð í Land Cruiser-bifreiðinni sem steyptist fram af brúnni yfir Núpsvötn í gær. Konurnar tvær sem létust hétu Rajshree Laturia og Khushboo Laturia, en þær voru eiginkonur bræðra sem nú liggja slasaðir á Landspítala, þeirra Shreeraj og Supreme Laturia.
Ellefu mánaða gömul dóttir þeirra Shreeraj og Rajshree, sem einnig lést í slysinu, hét Shreeprabha, en fólkið er allt breskir ríkisborgarar sem eiga ættir sínar að rekja til Indlands.
Samkvæmt fréttum bæði Telegraph og Daily Mail hafa bræðurnir tveir og eiginkonur þeirra öll starfað í fjármálageiranum í London. Sérstaklega er tekið fram í umfjöllun bresku miðlanna að hjónin Sheeraj og Rajshree voru árið 2015 sögð á meðal 100 áhrifamestu paranna af asískum uppruna í Bretlandi, fyrir að hafa látið að sér kveða í fjármálaheiminum og í góðgerðastarfi.
Fjölskyldan var, samkvæmt Daily Mail, stödd í fjögurra daga jólafrísferð hér á landi er slysið varð.