Lögreglan á Suðurlandi vonar að hægt verði að ræða í dag við ferðamennina tvo sem fluttir voru á Landspítalann í gær eftir alvarlegt bílslys við Núpsvötn í gærmorgun. Þrír létust í slysinu, eiginkonur mannanna tveggja sem eru bræður og eitt barn. Þá voru tvö börn sem eru 7 og 9 ára einnig flutt alvarlega slösuð á Landspítalann.
„Vitum ekki hvort hægt verði að tala við þá, en við vonumst þó til þess,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli í samtali við mbl.is. „Við vonumst með því til að fá þá einhverja skýrari mynd af því hvað gerðist.“
Hann segir heimildir lögreglu í gær hafa verið frekar jákvæðar á að hægt yrði að ræða við bræðurna, en RÚV greindi frá því í morgun að búið sé að útskrifa þá og börnin af bráðadeild og yfir á aðrar deildir sjúkrahússins.
Rannsókn á tildrögum slyssins heldur áfram í dag og mun rannsóknarnefnd samgönguslysa heimsækja slysstað í fylgd með lögreglu, en lögregla lauk vinnu sinni á vettvangi síðdegis í gær.
„Nú erum við aðallega að bíða eftir að geta komist í samband við þá sem lifðu af og geta tekið af þeim skýrslu. Síðan er farin af stað bíltæknirannsókn þar sem bíllinn verður skoðaður og sótt í hann þau göng sem hægt að ná í.“