„Það er verið að vinna í einstökum þáttum,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, í samtali við mbl.is um rannsókn á tildrögum slyssins sem varð við Núpsvötn milli jóla og nýárs þegar Toyota Land Cruiser-jeppi fór í gegnum vegrið á brúnni Súlu með þeim afleiðingum að þrír létust og fjórir slösuðust.
Lík þeirra sem létust verða krufin í dag og á Oddur von á bráðabirgðaniðurstöðum síðar í dag. „Síðan eru á bilinu fjórar til sex vikur sem tekur þar til skýrsla skilar sér með þeim rannsóknum sem eru gerðar samhliða krufningunni.“
Í bílnum voru tveir bræður ásamt eiginkonum og börnum. Konurnar létust báðar ásamt 11 mánaða ungbarni. Hin börnin tvö, á aldrinum 7 til 9 ára, eru á batavegi. Lögregla hefur tekið skýrslu af bróðurnum sem var farþegi í bílnum.
„Það á að skoða í dag hvort að hægt sé að ræða við ökumanninn en ég veit svo sem ekki stöðuna á því enn þá,“ segir Oddur en ökumaðurinn er sagður alvarlega slasaður.
Oddur segir að bróðirinn sem búið er að taka skýrslu af hafi verið mjög skýr í sinni frásögn en gat ekki tjáð sig meira um skýrslutökuna.
Rannsóknin er unnin í samstarfi við rannsóknarnefnd samgönguslysa og segir Oddur að verið sé að vinna úr þeim gögnum sem urðu til á vettvangi. Þá stendur rannsókn á bílnum enn yfir. „En það er ekkert sem blasir við þar,“ segir Oddur.