Von á bráðabirgðaniðurstöðu krufninga í dag

Slysið varð á brúnni Súlu við Núpsvötn 27. desember.
Slysið varð á brúnni Súlu við Núpsvötn 27. desember. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

„Það er verið að vinna í einstökum þáttum,“ segir Odd­ur Árna­son, yf­ir­lög­regluþjónn lög­regl­unn­ar á Suður­landi, í samtali við mbl.is um rannsókn á tildrögum slyssins sem varð við Núpsvötn milli jóla og nýárs þegar Toyota Land Cruiser-jeppi fór í gegn­um vegrið á brúnni Súlu með þeim af­leiðing­um að þrír lét­ust og fjór­ir slösuðust.

Lík þeirra sem létust verða krufin í dag og á Oddur von á bráðabirgðaniðurstöðum síðar í dag. „Síðan eru á bilinu fjórar til sex vikur sem tekur þar til skýrsla skilar sér með þeim rannsóknum sem eru gerðar samhliða krufningunni.“  

Í bíln­um voru tveir bræður ásamt eig­in­kon­um og börn­um. Kon­urn­ar lét­ust báðar ásamt 11 mánaða ung­barni. Hin börn­in tvö, á aldr­in­um 7 til 9 ára, eru á bata­vegi. Lög­regla hefur tekið skýrslu af bróðurnum sem var farþegi í bílnum.

Reyna að ræða við ökumanninn í dag

„Það á að skoða í dag hvort að hægt sé að ræða við ökumanninn en ég veit svo sem ekki stöðuna á því enn þá,“ segir Oddur en ökumaðurinn er sagður alvarlega slasaður.

Oddur segir að bróðirinn sem búið er að taka skýrslu af hafi verið mjög skýr í sinni frásögn en gat ekki tjáð sig meira um skýrslutökuna.

Rannsóknin er unnin í samstarfi við rannsóknarnefnd samgönguslysa og segir Oddur að verið sé að vinna úr þeim gögnum sem urðu til á vettvangi. Þá stendur rannsókn á bílnum enn yfir. „En það er ekkert sem blasir við þar,“ segir Oddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert