Lögreglumenn ræddu í gær við ökumann jeppans sem fór í gegnum vegrið á brúnni Súlu yfir Núpsvötn milli jóla og nýárs með þeim afleiðingum að tvær konur og eitt ungt barn létust. Hann man ekki eftir atburðinum.
„Það var reynt að taka skýrslu af ökumanninum en hann man ekki málsatvik,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi.
Spurður sagði Oddur að ökumaðurinn væri með réttarstöðu sakbornings en að ekki væri tilefni til að krefjast farbanns yfir honum.
Í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi í gær kom fram að ökumaðurinn, bróðir hans og börnin tvö sem lifðu slysið af séu á batavegi og búast megi við því að þau haldi til síns heima strax og heilsa leyfir.
Réttarkrufning á líkum hinna látnu fór fram í gær og mun rannsókn málsins taka nokkurn tíma.