„Risastórt lífskjaramál“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði húsnæðismál risastórt kjaramál í viðtali við Kastljós í kvöld, en átakshópur um fram­boð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á hús­næðismarkaði kynnti í dag tillögur sínar í þeim efnum. 

Verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir aðkomu ríkisins að kjaraviðræðunum, m.a. úrbótum hvað húsnæðismál varðar, en þó einnig breytingum á skattkerfinu svo dæmi sé nefnt. Fram kom að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafi lagt til að fjöldi íbúa sem byggður verður á vegum íbúðafélagsins Bjargs verði tvöfaldaður, en félagið var stofnað af ASÍ og BSRB og nýtur verkefnið stofnframlaga frá ríkinu. 

Katrín kvað aðspurð að ekki yrðu teknar ákvarðanir um slíkt í beinni útsendingu. „En nú liggur það fyrir og var rætt á samráðsfundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins í dag. Við fórum yfir allar þessar tillögur og þær heyra undir mismunandi stofnanir og ráðuneyti, ríki, sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins.“ 

Katrín var spurð út í þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði. Katrín segir að tillögur hópsins skili árangri fyrir þann hóp á næstu misserum. 

Meðal áherslna verkalýðshreyfingarinnar er hópur bágborinna leigjenda í ljósi þess að hækkandi leiguverð hafi mikil áhrif á afkomu fólks.

„Við vitum það öll að húsnæðiskostnaður er risastórt kjaramál og það hefur auðvitað áhrif á ráðstöfunartekjur fólks í þessu landi ef húsnæðiskostnaður er mjög hár og íþyngjandi,“ sagði Katrín og vísaði til þess að bent hefði verið á að tekjulægsta fólkið verði æ hærra hlutfalli tekna sinna á óöruggum leigumarkaði. „Þetta er auðvitað risastórt lífskjaramál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert