Fyrrverandi starfmaður bílaleigunnar Procar sem ræddi við fréttaskýringarþáttinn Kveik á RÚV í skjóli nafnleyndar, segir að bílaleigan hafi átt við kílómetrastöðuna á bílaleigubílum, áður en þeir voru svo leigðir út til ferðamanna og á endanum seldir, sem notaðir bílar til neytenda hér á landi.
„Bílarnir voru allt í einu komnir með færri kílómetra heldur en þeir voru árið áður,“ sagði uppljóstrarinn meðal annars við fréttamann Kveiks í þætti kvöldsins. Hann sagði að fyrst hefði hann talið að þetta athæfi væri einungis stundað með Suzuki Jimmy-jeppa, en síðan hefði hann séð að bílaleigan stundaði þetta einnig með bíla af tegundunum Suzuki Grand Vitara og Nissan Pathfinder.
Í umfjölluninni kom einnig fram að gögn sem þessi sami maður útvegaði og afhenti Kveik, sýni að tugir þúsunda kílómetra hafi verið teknir af akstursmælum í tugum bíla.
Þá kom fram í þættinum, að þetta háttalag væri mögulegt, þar sem ekki þurfi að skoða nýja bíla fyrstu fjögur árin sem þeir eru á götunni. Því séu líkur á að enginn eftirlitsaðili hafi tækifæri til að fylgjast með því hvort átt hafi verið við kílómetrafjöldann, á meðan bifreiðin er í eigu bílaleigu.
Gunnar Björn Gunnarsson, forstjóri bílaleigunnar Procar, sem umfjöllunin beindist að, hafnaði beiðni Kveiks um viðtal, en sagðist ekki kannast við að átt hefði verið við kílómetrastöðuna.
Hér má nálgast umfjöllun Kveiks um Procar í heild sinni