Tugir manna hafa haft samband við Draupni lögmannsþjónustu í von um að fá bætur vegna viðskipta sinna við bílaleiguna Procar.
Bílaleigan hefur viðurkennt að átt hafi verið við akstursmæla notaðra bíla sem síðar voru seldir.
Að sögn Björgvins Þorsteinssonar lögmanns hjá Draupni, sem hefur milligöngu um greiðslu bótanna, hafa viðbrögðin verið töluverð. Strax í gærkvöldi eftir umfjöllun Kveiks um málið byrjuðu fyrirspurnir að streyma inn á netfang Draupnis sem gefið var upp í yfirlýsingu sem send var út vegna málsins.
„Við reynum að leysa þetta gagnvart þeim sem keyptu bíla og geta talist hafa verið hlunnfarnir,“ segir Björgvin.
Procar seldi um 650 notaðar bifreiðar á árunum 2013 til 2016 en ekki liggur fyrir í hversu mörgum af þeim hafi verið átt við akstursmælinn. Mögulega voru þær 100 til 120 talsins.
Þeir sem keyptu bifreiðar af Procar á þessum árum geta fengið ópersónugreinanleg afrit af leigusamningum viðkomandi bifreiðar til að fá fullvissu um hvort átt hafi verið við kílómetramæli hennar. Að sögn Björgvins ætlar lögmannsstofan að fá umrædd gögn innan hálfs mánaðar frá því að viðskiptavinirnir hafa samband.
Í yfirlýsingunni í gær kom fram að óháður aðili muni ákveða hversu háar bætur hver og einn fær í sinn hlut. Björgvin segir að ekki hafi verið ákveðið hver þessi óháði aðili verður.