„Mjög margt er þarna undir og það sér ekki enn fyrir endann á þessu máli,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), í samtali við mbl.is vegna máls bílaleigunnar Procar en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa viðurkennt að kílómetramælar að minnsta kosti um eitt hundrað bifreiða sem það hefur selt hafi verð færðir niður. Bílaleigan var í gær rekin úr Samtökum ferðaþjónustunnar vegna málsins.
„Við teljum mjög mikilvægt á þessu stigi að einhver opinber aðili stígi fram,“ segir Runólfur. Þarna þurfi ljóslega einhver slíkur aðili að grípa inn í. Það þurfi að tryggja það að þetta athæfi hafi ekki átt sér stað í tilfelli annarra bifreiða sem Procar hafi selt. Fyrir liggi aðeins orð forsvarsmanna fyrirtækisins um að þessi iðja hafi aðeins verið stunduð á ákveðnu tímabili og hafi verið hætt. Til þess þurfi einhver aðili að fara þarna inn.
Runólfur bendir á að Samtök ferðaþjónustunnar telji nauðsynlegt að farið verði í athugun á þessum málum hjá bílaleigum með stikkprufum enda ljóst að þetta mál skaðar ekki aðeins orðspor Procar heldur einnig bílaleigugreinarinnar í heild og bílgreinarinnar enda kunni umræddar bifreiðar síðan að ganga kaupum og sölum áfram. Það sem er þó alvarlegast sé aðförin að öryggi neytenda sem þessi starfsemi feli í sér.
„Bifreiðarnar geta þannig verið miklu meira úr sér gengnar en ætla má vegna þess að þeim hefur verið ekið miklu meira en stendur á mælunum. Þetta er skjalafals, það er verið að selja ökutækið á röngum forsendum. Þetta hefur veruleg áhrif á verðgildi ökutækisins enda er það sem vegur þyngst í verðgildi bifreiða aldur þeirra og akstursnotkun. Þarna er verið að búa til leið til þess að selja ökutæki langt umfram eðlilegt verð.“
Við þetta bætist framtíðarskaði vegna endursölu ökutækjanna. „Síðan þarf einhver opinber aðili að halda skrá yfir raunverulega akstursnotkun þeirra því við viljum ekki að þessar bifreiðar fari síðan í endursölu og týnist inn í framtíðina með kolranga akstursstöðu.“ Þess utan skori FÍB á Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra að breyta reglugerð um aðalskoðun bifreiða þess efnis að skoða þurfi bílaleigubíla árlega.
„Þetta er fyrst og fremst öryggismál en ekki síður neytendamál eins og sýnir sig núna vegna þess að kílómetrastaða bifreiða er skráð við aðalskoðun og þá er alla vega komin þessi árlega skráning þessara bílaleigubíla,“ segir Runólfur. Mjög aðkallandi sé að þetta sé gert. Þá gagnrýnir hann Procar fyrir að ætlast til að kaupendur umræddra bifreiða hafi samband við lögfræðinga á vegum fyrirtækisins og gangi frá einhverju samkomulagi.
Bendir Runólfur á að kaupendur þurfi þá að minnsta kosti að hafa einhvern með sér sem geti gætt réttar þeirra og kostnaður vegna þess sé einnig eitthvað sem fyrirtækið eigi að bera enda hluti af þeim skaða sem umræddir einstaklingar hafi orðið fyrir. Þá sé eðlilegast að opinberir aðilar fari yfir málið og leggi mat á það hvaða bifreiðar af þeim sem fyrirtækið hafi selt á liðnum árum hafi verið átt við með þessum hætti.
„Þetta geta verið það alvarleg mál varðandi það sem fólk taldi sig í góðri trú vera að kaupa að það gætu verið forsendur fyrir því að rifta kaupunum,“ segir Runólfur enn fremur. Eðlilegast væri að Procar myndi einfaldlega bjóða kaupendum að rifta kaupunum og taka bifreiðarnar til sín aftur.