Hjálpa viðskiptavinum Procar

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. mbl.is/Styrmir Kári

Bílaumboðið Brimborg býður bíleigendum sem eiga bíla af þeim tegundum sem Brimborg er umboðsaðili fyrir og hafa keypt þá af bílaleigunni Procar að hafa samband við starfsmenn Brimborgar, sem munu „gera allt sem í þeirra valdi stendur við að komast að því hvort átt hafi verið við km. stöðu bílanna“. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Brimborg sendi á blaðamann mbl.is í gærkvöldi.

Þar kemur einnig fram að viðskiptavinir bílaumboðsins geti verið „100% vissir“ um að kílómetrastöður bílaleigubíla Brimborgar séu réttar, en Brimborg er leyfishafi hérlendis fyrir bandarísku bílaleigurnar Dollar og Thrifty, sem eru í eigu Hertz-samstæðunnar. Samanlagt hafa bílaleigurnar um 1.000 bílaleigubíla í flota sínum.

„Brimborg hefur aldrei og mun aldrei eiga við kílómetrastöður bíla á nokkurn hátt og allar útleigur, skil og kílómetrastöður bílaleigubíla eru skráðar í upplýsingatæknikerfi okkar og rekjanlegar niður á bíl, kerfisnotanda (starfsmann), skráningardag og ástæðu uppfærslu. Við fögnum öllu eftirliti og bjóðum eftirlitsaðila velkomna,“ segir í yfirlýsingu Brimborgar, en þar kemur einnig fram að fjórfaldur rekjanleiki sé á kílómetrastöðu bílaleigubíla Brimborgar, sem felist í eftirtöldu:

  • Við útleigu skráir bílaleigustarfsmaður km. stöðu bíls í upplýsingatæknikerfið og km. staða skráist um leið á leigusamning.
  • Við skil skráir bílaleigustarfsmaður km. stöðu bíls í upplýsingatæknikerfið.
  • Við reglubundna þjónustu skráir bifvélavirki km. stöðu bíls í upplýsingatæknikerfið.
  • Ökuriti frá þriðja aðila er í öllum bílaleigubílum Brimborgar og sendir ökuritinn daglega sjálfvirkar færslur um km. stöðu í upplýsingatæknikerfið.

Fram kemur í yfirlýsingu bílaumboðsins að ekki sé hægt að leigja bíl né skila bíl úr leigu, án þess að skrá kílómetrastöðuna og að ekki sé hægt að skrá inn lægri stöðu, en þegar liggi fyrir í kerfinu.

Þá segir einnig að óháður starfsmaður á skrifstofu taki vikulegt, tilviljunarkennt úrtak úr bílaflota leigunnar og sannreyni kílómetrastöðu bíla, ásamt því að skoða leigusamninga, útleigu og skil og þjónustuskoðanir og stemma af við daglegar ökuritaskráningar.

Hafa skal samband á eftirfarandi hátt með fyrirspurnir:

Fyrir bíla af gerðinni Mazda, Citroën og Peugeot: Benný Ósk, sölustjóri, bennyh@brimborg.is
Fyrir bíla af gerðinni Ford og Volvo: Gísli Jón, sölustjóri, gjb@brimborg.is. 

Fyrir aðrar gerðir en að ofan greinir skal hafa samband við Benný Ósk, en í fyrirspurninni þarf að koma fram nafn eiganda bílsins, sími, netfang og bílnúmer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert