Mislingasmit um borð í vél Icelandair

Mislingasmit hefur verið staðfest hjá einum farþega sem var í …
Mislingasmit hefur verið staðfest hjá einum farþega sem var í flugi FI455 með Icelandair frá London til Keflavíkur 14. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegum og áhöfn um borð í flugi Icelandair frá London til Keflavíkur 14. febrúar hefur verið send tilkynning frá sóttvarnarlækni um möguleika á mislingasmiti um borð. Sams konar tilkynning var send farþegum og áhöfn um borð í flugi Air Iceland Connect frá Reykjavík til Egilsstaða daginn eftir, 15. febrúar.  

Mislingasmit hjá einum farþega Icelandair-vélarinnar hefur verið staðfest. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is, en Rúv greindi fyrst frá málinu. 

Í tilkynningunum segir að flugin sem um ræðir séu flug FI455 með Icelandair 14. febrúar og flug NY356 með Air Iceland Connect 15. febrúar.  Smitið hefur áhrif á yfir 200 manns en 147 farþegar voru um borð í vél Icelandair og 70 í vél Air Iceland Connect. 

Ásdís segir að Icelandair hafi borist upplýsingar frá sóttvarnalækni um smitið í gær. „Við fylgjum síðan því verklagi sem fer í gang hjá sóttvarnarlækni og upplýsum farþega og áhöfn.“ Málið er nú í ferli hjá Embætti landlæknis. 

Fólki sem var um borð í þessum vélum er sagt að vera á varðbergi fyrir einkennum eins og hita, kvefeinkennum, roða í augum og/eða útbrotum. Farþegum sem verða varir við slík einkenni er bent á að hafa samband við lækni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert