Smálán eru lán sem valda hvað mestum vanda hjá neytendum. Þetta er niðurstaða starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja sem skilaði í dag skýrslu og tillögum að aðgerðum til Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ráðherra fól hópnum síðastliðið sumar að kortleggja starfsumhverfi smálánafyrirtækja og leggja fram tillögur til úrbóta.
„Það er mikilvægt að gera greinarmun á ólöglegum smálánum og öðrum neytendalánum sem snúa að nýsköpun í aukinni fjártækni þegar við vinnum að regluverki slíkra lána. Ég tel að í þeirri vinnu eigi að einblína á að þrengt verði að þeim lánveitendum smálána sem stunda óréttmæta viðskiptahætti,“ er haft eftir Þórdísi í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Í vinnu starfshópsins var lagt til grundvallar að gætt yrði að jafnvægi milli neytendaverndar, samkeppni og nýsköpunar á fjármálamarkaði. Brýnt væri að tryggja betur lögbundin réttindi neytenda og að tryggja að viðkvæmir neytendur séu verndaðir gagnvart fyrirtækjum sem beita óréttmætum viðskiptaháttum í starfsemi sinni. Að sama skapi var lagt til grundvallar að reglusetning eigi ekki að setja óþarfa hömlur á nýsköpun á fjármálamarkaði eða draga úr samkeppni milli fyrirtækja.
Starfshópurinn telur að mikilvægt sé að umræðan um smálán hafi ekki skaðleg áhrif á framboð á löglegum neytendalánum sem veitt eru í fjarsölu. Í tillögum starfshópsins endurspeglast meðal annars sá vandi sem skapast hefur í tengslum við smálánastarfsemi.
Starfshópurinn taldi ekki þörf á að lánastarfsemi yrði gerð leyfisskyld. Leyfisskylda gæti hamlað nýsköpun og dregið úr samkeppni og taldi starfshópurinn að unnt væri að ná markmiðum um neytendavernd með öðrum úrræðum.
Starfshópurinn skilaði 12 tillögum að aðgerðum sem miða að því að skýra betur rétt neytenda og að vernda neytendur vegna ólöglegrar smálánastarfsemi. Helstu niðurstöður og tillögur starfshópsins eru eftirfarandi:
Tillögurnar verða áfram til umfjöllunar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við þar til bæra aðila og stofnanir.