Áhrif sviksamlegra aðgerða víðtæk

Geir Gunnarsson forstjóri Bernhard, sem einnig rekur bílaleiguna IceRentalCars.
Geir Gunnarsson forstjóri Bernhard, sem einnig rekur bílaleiguna IceRentalCars. mbl.is/Eggert

„Þessar fregnir eru sláandi og um leið sorglegt að aðilar fari slíkar leiðir í þeim eina tilgangi að hagnast á kostnað annarra. Ljóst er að áhrif þessara sviksamlegu aðgerða eru víðtæk og erfitt að sjá fyrir endann á afleiðingunum, bæði fyrir bílaleigugreinina en einnig markað fyrir notaðar bifreiðar,“ segir í tilkynningu frá bílaumboðinu Bernhard, sem einnig rekur bílaleiguna IceRentalCars.

Fyrirtækið er umboðsaðili Honda á Íslandi og var einnig með umboð fyrir Peugeot-bíla á árunum 2001-2016. Í fréttatilkynningunni kemur fram að Bernhard kappkosti að öll þess viðskipti séu fagleg, heiðarleg og byggi á siðferðislega sterkum grunni.

Bílaleigan IceRentalCars hefur verið starfrækt frá ársbyrjun 2016 og segir í tilkynningu Bernhard að frá upphafi hafi verið lögð áhersla á fagleg vinnubrögð og að kílómetrastöður bifreiða séu skráðar við upphaf og lok hverrar leigu.

„Þessi gögn liggja fyrir ásamt því að smursaga bifreiða leiðir í ljós að engar breytingar hafa orðið á kílómetrastöðu. Enn fremur er veitt eftirlit með því hvort kílómetrastöður í leigukerfi séu í samræmi við raunverulegan akstur bifreiða til þess að tryggja að réttar upplýsingar séu skráðar. Af hálfu stjórnenda IceRentalCars er mikil áhersla lögð á rétta skráningu kílómetrastöðu. Fari svo að eftirlitsaðilar geri úttekt á okkar bifreiðum og útleigum getum við ábyrgst að engar rangfærslur muni koma í ljós,“ segir í tilkynningunni.

Viðskiptavinir Bernhard eru auk þess hvattir til þess að hafa samband við fyrirtækið, ef áhyggjur þeirra vakna. Þá mun fyrirtæki kappkosta að veita allar þær upplýsingar sem það getur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert