Vilja bílaleigubíla í skoðun árlega

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) telja nauðsynlegt sé auka tíðni …
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) telja nauðsynlegt sé auka tíðni aðalskoðunar bílaleigubíla og segja eðlilegt að þeir fái aðalskoðun ár hvert eins og leigubílar. mbl.is/Hari

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) telja nauðsynlegt að auka tíðni aðalskoðunar bílaleigubíla eftir að í ljós kom að kílómetrasvindl væri stundað hér á landi. Samtökin segja eðlilegt að bílaleigubílar fái aðalskoðun ár hvert eins og leigubílar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef samtakanna í dag.

„Frá upphafi árs 2009 hafa fólksbílar farið fyrst í aðalskoðun á fjórða ári eftir skráningu, annað hvert ár í tvö næstu skipti, og árlega eftir það. Þetta á við um alla fólksbíla nema leigubíla, sem skoðaðir eru árlega. Sterkar vísbendingar eru hins vegar um að bílaleigubílar séu eknir álíka mikið á fyrsta einu til einu og hálfu árinu og fólksbílar í eigu einstaklinga eru eknir á fyrstu þremur til fjórum árum eftir nýskráningu. Við þetta bætist að nú stendur yfir innleiðing á Evrópugerð þar sem beinlínis er gert ráð fyrir að við aðalskoðun beri skoðunaraðilum að yfirfara kílómetramæla bifreiða. Þá er kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að beita þá refsingu sem eiga við kílómetramæla ökutækja. SVÞ telja því eðlilegt að bílaleigubílar fái aðalskoðun ár hvert eins og leigubílar,“ segir í tilkynningu samtakanna.

SVÞ segja að fölsun kílómetrastöðu sé alvarlegt vandamál á alþjóðavísu, en Íslendingar hafi verið lítt meðvitaðir um tíðni og útbreiðslu slíkrar fölsunar.

„Regluleg bifreiðaskoðun er framkvæmd til að treysta umferðaröryggi. Skilvirknirök mæla með því að brugðist verði við þeirri stöðu sem upp er komin með því að auka skoðunartíðni bílaleigubíla. Með slíkri aðgerð yrði traust á eftirmarkaði ökutækja endurreist og neytendum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti á eftirmarkaði veitt nauðsynleg vernd gegn því að ökutækið sé í verra ástandi en aldur og staða kílómetramælis gefa til kynna,“ segja SVÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka