Tæplega ellefu mánaða gamalt barn greindist með mislinga á laugardaginn en barnið var í sama flugi og einstaklingur með smitandi mislinga um miðjan febrúar. Barnið var óbólusett enda yfirleitt bólusett við mislingum við 18 mánaða aldur.
Barnið var lagt inn á Barnaspítala Hringsins 1. mars og heilsast vel eftir atvikum. Líkur á frekara smiti frá barninu er ólíklegt en einstaklingar í nánasta umhverfi barnsins eru bólusettir gegn mislingum, segir í frétt á vef embættis landlæknis.
Á þessari stundu er ekki vitað um fleiri smitaða einstaklinga en mögulega má búast við smiti fram til 7. mars en þá eru 3 vikur liðnar frá því að einstaklingurinn með mislinga í fyrrgreindri frétt var á ferðalagi bæði erlendis og hér innanlands.
„Rétt er að minna á að mislingar eru með mest smitandi sjúkdómum sem þekkjast. Engin meðferð er til við sjúkdómnum og eina fyrirbyggjandi meðferðin felst í bólusetningu sem veitir meira en 95% vörn. Þetta minnir á mikilvægi þess að halda hér uppi góðri þátttöku í bólusetningum.
Bólusetning gegn mislingum er við 18 mánaða og 12 ára aldur. Hægt er að bólusetja börn frá 6 mánaða aldri en vörn bólusetningarinnar er óviss á aldrinum 6−12 mánaða. Litlar líkur eru á vernd ef bólusett er fyrir 6 mánaða aldur,“ segir í frétt á vef landlæknis.
Frá árinu 2016 hafa mislingatilvik komið ítrekað fyrir um borð í flugvélum sem haft hafa viðkomu hér á landi. Fyrst greindust mislingar um borð í flugvél Icelandair í ágúst 2016 hjá barni sem millilenti hér á landi á leið frá Kanada til Englands. Einn óbólusettur Íslendingur veiktist sem var í sömu vél.
Vorið 2017 veiktist níu mánaða gamalt barn við heimkomu eftir dvöl í Taílandi. Tvíburabróðir barnsins veiktist svo hálfum mánuði síðar hér á landi. Bræðurnir voru óbólusettir vegna ungs aldurs.
Í lok október 2017 veiktist Íslendingur sem dvaldist í Bangladess eftir heimkomu til landsins með væg einkenni. Hann hafði sögu um fullnægjandi bólusetningu gegn mislingum og var mótefnasvarið kröftugt sem leiddi til vægrar sjúkdómsmyndar sem ekki var einkennandi fyrir mislinga.
Í maí 2018 var staðfest mislingasmit um borð í vélum Icelandair sem var að fara frá Þýskalandi til Kanada með millilendingu hér á landi og aftur í júlí sl. hjá einstaklingi á leið frá Englandi til Bandaríkjanna með WOW air. Engir Íslendingar smituðust í þessum vélum.