„Alvarlegasta staðan í áratugi“

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mislingasmitin fjögur sem hafa komið upp hér á landi undanfarna daga eru „alvarlegasta staðan í áratugi“.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Landspítalans þar sem fjallað er um mislinga.

Þar kemur fram að einkennin byrji oftast með „flensulíkum“ einkennum; hita nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk.

„Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna. Börnin eru smitandi eftir að hiti og almenn einkenni koma fram, eða í um það bil 4 daga áður en útbrotin koma fram og meðan útbrotin eru að ganga yfir,“ segir á síðunni.

„Ýmsir sjúkdómar eins og niðurgangur, eyrnabólga, kviðverkir og uppköst geta komið í kjölfar mislinga og í stöku tilfellum geta alvarlegir fylgikvillar komið fram, líkt og lungnabólga og heilabólga.“

Ef grunur leikur á mislingasmiti er hægt að hafa samband við símanúmerið 1700.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert