Vitað er til þess að tvö börn hafi smitast af mislingum í flugi Icelandair frá London til Íslands fjórtánda febrúar.
Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum, sagði í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar 2 að annað barnið hafi verið lagt inn á sjúkrahús og sé á batavegi. Hitt barnið hafi veikst en gat dvalið heima.
Embætti landlæknis greindi frá því á vef sínum í gær að 11 mánaða barn hafi greinst með mislinga á laugardaginn. Þar var í sömu flugvél og annar einstaklingur sem var með smitandi mislinga.
Að sögn Ásgeirs var annað barnið á leikskóla í síðustu viku og hefur því verið haft samband við foreldra allra barna, yngri en 18 mánaða, í skólanum. Hafa þurfi sérstakt eftirlit með þeim til að rjúfa mögulega keðju af smiti.
Fram kemur að fjórir hafi greinst með mislinga hérlendis undanfarna daga. Um er að ræða karlmann sem kom hingað til lands frá Filippseyjum, auk barnanna tveggja og eins fullorðins til viðbótar.